Alls voru 204 nemendur brautskráðir frá Háskólanum í Reykjavík við hátíðlegar athafnir í Hörpu í dag, laugardaginn 30. janúar. Vegna samkomutakmarkana var hátíðinni skipt upp í tíu minni athafnir þar sem hámark tuttugu nemendur voru brautskráðir í hverri athöfn. 158 nemendur voru brautskráðir úr grunnnámi, 44 úr meistaranámi og tveir úr doktorsnámi.
Af samfélagssviði útskrifuðust samtals 69 nemendur, 34 úr grunnnámi, 34 úr meistaranámi og einn doktorsnemi. 38 nemendur útskrifuðust úr viðskiptadeild, 18 úr grunnnámi, 19 úr meistaranámi og einn úr doktorsnámi. Úr lagadeild útskrifuðust 23, tíu úr grunnnámi og 13 úr meistaranámi. Sálfræðideild útskrifaði sjö nemendur, sex úr grunnnámi og einn meistaranema, og íþróttafræðideild útskrifaði einn meistaranema.
Af tæknisviði útskrifuðust samtals 135 nemendur, 124 úr grunnnámi, tíu úr meistaranámi og einn úr doktorsnámi. 50 útskrifuðust úr grunnnámi úr iðn- og tæknifræðideild, úr verkfræðideild útskrifuðust 20 úr grunnnámi og sex úr meistaranámi og úr tölvunarfræðideild útskrifuðust 54 úr grunnnámi, fjórir úr meistaranámi og einn úr doktorsnámi.
Dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, sagði í hátíðarávarpi sínu að vegna rannsókna og vísinda væri eðlilegra líf nú rétt handan við hornið. Fram undan væru ærin verkefni og fjöldi tækifæra til að skapa betra samfélag. Mikilvægt væri að nýta tækni og vísindi til að efla bæði lífsgæði og sjálfbærni.
„Efasemdaraddir eru til sem segja að ekki sé bæði hægt að auka lífsgæði og halda jafnvægi við náttúruna. Því verði að fórna öðru hvoru. Þetta er ekki rétt og við Íslendingar eigum fjölmörg dæmi sem afsanna slíkar kenningar. Eitt skýrasta dæmið er uppbygging hitaveitunnar sem jók til muna lífsgæði, bætti verulega efnahagslega hagsæld og svo að segja útrýmdi brennslu kolefnis til upphitunar á Íslandi,“ sagði Ari meðal annars í ræðu sinni.
Verðlaun VÍ fyrir framúrskarandi námsárangur hlutu að þessu sinni: Viðar Stefánsson í rekstrarverkfræði, Jóhannes Bergur Gunnarsson í rafmagnstæknifræði, Ástríður Alda Sigurðardóttir í sálfræði, Sigurjón Þorsteinsson í tölvunarfræði og Anna Sofía Rosdahl í lögfræði.
Gabríela Jóna Ólafsdóttir, BSc í tölvunarfræði, flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnemenda.
Hægt er að horfa á upptöku frá brautskráningunni.