Búist er við því að fyrsta sending af AstraZeneca-bóluefninu komi til landsins í næstu viku.
Þetta segir Birgir Jakobsson, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra. Í þeirri sendingu eiga að koma 13.800 skammtar, að hans sögn, og er það í samræmi við fyrri yfirlýsingar heilbrigðisráðuneytisins.
Lyfjastofnun veitti bóluefni AstraZeneca skilyrt íslenskt markaðsleyfi í gær, en forsenda þess er markaðsleyfi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
AstraZeneca-efnið verður þriðja bóluefnið til að hljóta markaðsleyfi hér á landi, en hin tvö eru frá BioNTech/Pfizer og Moderna.