Dagur segir að bönkunum hafi skjátlast

Dagur B. Eggertsson í pallborði á Húsnæðisþingi.
Dagur B. Eggertsson í pallborði á Húsnæðisþingi. Skjáskot af Húsnæðisþingi

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, sagði á Húsnæðisþingi að bönkunum hefði skjátlast þegar þeir drógu úr lánveitingum til byggingarframkvæmda síðustu tvö árin. 

Sagði Dagur í pallborðsumræðum þingsins að um áramótin 2018-2019 hefðu allar lánastofnanir verið sannfærðar um að offramboð á fasteignum væri fram undan og því dregið úr lánveitingum til verktaka í slíkum verkefnum síðastliðin tvö ár. 

Dagur sagði þær spár ekki hafa gengið eftir og hélt fasteignaverð áfram að hækka. Samkvæmt mati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er óuppfyllt íbúðarþörf nú tæplega fjögur þúsund íbúðir og útlit fyrir að hún muni aukast og verða um sex þúsund íbúðir í lok árs 2023. 

Nauðsynlegt að hafa bankana með 

Dagur sagði nauðsynlegt að hafa banka og lánastofnanir með í umræðunni um áframhaldandi uppbyggingu húsnæðis enda sveifluaukandi ef allir bankarnir rifu í handbremsuna á sama tíma.

Slíkt ylli framboðsskorti, sem með sögulega lágum vöxtum hefði áhrif á verðþrýsting á fasteignamarkaði. 

Opinber fjármögnun hjálpaði

Dagur sagði að sem betur fer hefðu ekki allar framkvæmdir dottið niður á þessum tíma enda hefðu verkefni með opinbera fjármögnun verið í gangi síðustu ár. Hann nefndi stofnframlög frá HMS og sveitarfélögum sem dæmi og það sýndi fram á nauðsyn þess að fá fjármálastofnanir inn í umræðuna. Bönkunum hefði skjátlast í þetta skiptið og nauðsynlegt væri að læra af þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert