Dansarar undrast ásakanir um sóttvarnabrot

Fram kom að 25 hefðu verið kærðir.
Fram kom að 25 hefðu verið kærðir. mbl.is/Árni Sæberg

Samfélag bachata-dansara hefur sent frá sér opið bréf þar sem það furðar sig á ásöknum um meint sóttvarnabrot þeirra.  

Fram kom í dagbók lögreglunnar á miðvikudaginn að hún hefði fengið ábendingu um dansleik við hlið veitingastaðar í miðborginni. Gestir hafi farið inn á veit­ingastaðinn og borið áfengi og aðrar veit­ing­ar á milli. Sagt var að 25 einstaklingar hefðu verið kærðir fyrir brot á sóttvarnalögum.

„Algjörlega óskiljanlegt“

Fram kemur í bréfi dansaranna að ekki hafi verið á ferðinni fyllerí á fölskum formerkjum dansíþróttaæfingar eins og haldið hafi verið fram.

„Það er okkur algjörlega óskiljanlegt hvað gengur þessum aðilum til sem hafa komið fram með þessar ósönnu ásakanir. Sannleikurinn er sá að á þriðjudagskvöld var haldinn hóptími í dansi með tveimur reyndum danskennurum. Litlum hópi fólks var boðið að taka þátt og ónotað verslunarrými á Laugavegi fengið að láni,“ segir í bréfinu sem var birt á facebooksíðu dansaranna.

„Þar stóð yfir dansæfing með 22 einstaklingum sem allir báru grímu þegar lögreglu bar að garði. Það er 28 einstaklingum færra en leyfi er til að stundi íþróttaæfingu samkvæmt núgildandi reglugerð um sóttvarnir. Á borðum milli sprittbrúsa voru örfáir drykkir, kannski 5 glös á stangli sem stóðu óhreyfð enda fókusinn á því að dansa. Það sást ekki ölvun á neinum enda ómögulegt að halda á drykk meðan dansaður er samkvæmisdans. Það var því algjörlega úr lausu lofti gripið að talsverð ölvun hafi verið á svæðinu og allir með glas í hendi.“

Fram kemur að fregnir af atvikinu hafi verið á köflum ósanngjarnar, ósannar og ærumeiðandi.

„Ekki einungis að gestir hafi verið ölvaðir heldur einnig fullyrðingar um að allir yrðu kærðir fyrir áfengislaga- og sóttvarnabrot enda liggur engin slík ákvörðun fyrir samkvæmt upplýsingum lögreglu.

Lögregla hefði þetta kvöld betur mælt vínanda í blóði viðstaddra. Slíkt hefði tekið af allan vafa um að þarna var um að ræða íþróttastarf en ekki drykkjuskap.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert