Kröfuhafar VHE ehf. hafa samþykkt nauðasamning fyrirtækisins sem rambað hefur á barmi gjaldþrots um margra missera skeið. Langstærsti kröfuhafi fyrirtækisins er Landsbankinn.
Í afar flókinni viðskiptafléttu hefur bankinn leyst til sín söluandvirði eigna sem fyrirtækið hefur losað sig við en á sama tíma fellur bankinn frá samningskröfum upp á milljarða króna.
Í nauðasamningnum er greint frá því að nýtt hlutafé þurfi til þess að standa skil á greiðslu fyrstu afborgana af eftirstöðvum lýstra og samþykktra krafna og eins til þess að greiða upp forgangskröfur sem nema hátt í hálfum milljarði. Þá er einnig tilgreint að eigendur félagsins þurfi persónulega að greiða hluta skattaskulda VHE.
Að sögn lögfræðinga sem Morgunblaðið ræddi við er það gert til þess að forðast refsiábyrgð gagnvart vanefndum gagnvart hinu opinbera. Heildarskuld VHE við skattayfirvöld nemur 450,9 milljónum og er ljóst að helmingur þeirrar fjárhæðar verður nú afskrifaður.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, neitar að tjá sig um málefni VHE og segir bankaleynd ríkja um þau. Af nauðasamningi VHE má ráða að bæði lánanefnd Landsbankans og bankaráð hafi tekið málefni fyrirtækisins og skuldauppgjörið til afgreiðslu en það hefur verið í gjörgæslu hjá bankanum um nokkurra ára skeið. Kröfuhafar VHE eru margir en fæstar eru kröfurnar yfir 10 milljónir króna. Morgunblaðið birtir í dag lista yfir þá 25 aðila sem fyrirtækið skuldaði þá fjárhæð eða meira þegar það fór í greiðslustöðvun.