Ferðafélagið Útivist leggur til að Þórsmörk og Goðaland verði utan fyrirhugaðs hálendisþjóðgarðs. Þetta kemur fram í umsögn félagsins við frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra um hálendisþjóðgarð.
Alls voru í gær komnar 63 umsagnir við frumvarpið sem er til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.
Í umsögn Útivistar er bent á að skv. ákvæði frumvarpsins verði ráðherra bundinn af því að allt svæði sem er innan þjóðlendumarka og innan miðhálendislínu verði innan þjóðgarðs. Undir þetta falli meðal annars Þórsmörk og Goðaland. Um 100 ár séu nú liðin frá því að Þórsmörk og Goðaland voru friðuð fyrir beit og fljótlega eftir það hafi Skógrækt ríkisins tekið við umsjón svæðisins, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Stjórnun og umsjón svæðisins hafi tekist vel í alla staði. Margvíslegar aðgerðir hafi verið gerðar til að tryggja að svæðið þoli þann ferðamannafjölda sem þangað sækir og m.a. stórfellt átak verið gert í viðhaldi göngustíga og settir hafi verið upp varnargarðar.