Komst úr svartnætti eiturlyfja

Anna María Sigtryggsdóttir hefur verið edrú í sjö ár og …
Anna María Sigtryggsdóttir hefur verið edrú í sjö ár og nýtur þess að vera til staðar fyrir börnin sín þrjú og ömmustelpurnar sínar. Hún er laus við fíknina sem heltók líf hennar um langt skeið. mbl.is/Ásdís

„Ég er á mjög góðum stað í dag en þetta hefur verið löng vegferð og ég hef lagt mikið á mig, en mögulega getur sagan mín hjálpað öðrum konum. Þetta er ekki falleg saga,“ segir Anna María Sigtryggsdóttir sem sest með blaðamanni yfir góðum kaffibolla einn eftirmiðdag í vikunni. Hún fagnaði nýlega sjö ára edrúafmæli, en líf hennar hefur verið þyrnum stráð allt frá barnæsku. Með hugrekki, dugnaði og elju tókst Önnu Maríu að stíga út úr ljótum heimi fíkniefna og skapa sér fallegt líf.

Upplifði mikla höfnun

Anna María fæddist í Reykjavík og á eina eldri systur. Þegar þær systur eru átta og tíu ákveða foreldrar hennar að skilja.

 „Mamma kallar á okkur systur inn í svefnherbergi og ég sest á milli hennar og pabba á rúmið. Systir mín stendur álengdar. Þetta andartak er greypt í huga mér. Mamma segir okkur að þau ætli að skilja og spyr okkur: „Hvort viljið þið koma með mér eða pabba ykkar?“ Systir mín var fljót að velja pabba. Ég man að ég grét svo mikið af því mig langaði svo að fara þangað sem systir mín fór, en ég gat ekki látið mömmu vera eina þannig að ég valdi hana. Þetta var svakalegt áfall,“ segir Anna María.  

„Það tekur við mikið brölt á mömmu. Við fluttum oft og ég fór í marga grunnskóla. Ég upplifði ekki ást og umhyggju hjá móður minni heldur mikla höfnun; ég var alltaf fyrir henni. Ég var sett í sveit á vorin og sótt á haustin og aldrei á sama bóndabæ. Hún var alltaf að koma mér einhvers staðar fyrir. Ég hafði aldrei þetta öryggi sem barn á að hafa.“

„Ég var tólf ára þegar ég drakk í fyrsta skipti. Það var á einum sveitabænum og fundum við krakkar dunk af eldgömlu rabarbaravíni uppi á lofti. Guð minn góður, þetta var himnasending fyrir tólf ára barnið. Allur kvíði hvarf og mér fannst ég svo frábær. Ég vissi að ég myndi gera þetta aftur. Stuttu síðar byrjaði ég í helgarmynstri; ég byrja að drekka niðri í bæ, fara á rúntinn og í heita lækinn,“ segir hún og segist fljótt hafa farið að drekka illa.

Trúði ekki að pabbi væri dáinn

Sextán ára stóð Anna María uppi ein og flutti um skeið til föður síns og fann sér vinnu.
Á þessum tíma var drykkjan ekki farin úr böndunum, en oft kom það fyrir að Anna María drykki sig til óminnis. 

„Svo kynnist ég fyrrverandi manni mínum á sjómannaballi á Hótel Íslandi þegar ég er sautján. Við förum að búa mjög fljótlega en hann kunni illa við sig fyrir sunnan og við fluttum út á land í lítið sjávarþorp. Ég fékk góða vinnu í Búnaðarbankanum og vann þar í níu ár. Ég drakk ekki mikið á þessum tíma en þegar ég drakk drakk ég illa. Eiginmaðurinn þurfti oft að koma mér heim,“ segir Anna María. Hún eignaðist dóttur nítján ára og síðar bættust í hópinn tveir drengir. En áður en yngsta barnið kom í heiminn reið mikið áfall yfir.

„Ég var 23 ára og búin að eiga tvö börn. Pabbi hafði oft komið í heimsókn til mín með sín litlu fjögur börn og konu og ég á mjög góðar minningar frá því. Eitt sinn var ég í vinnunni í bankanum og maðurinn minn kemur þangað og ég sá það strax á svipnum að eitthvað hafði gerst. Hann bað mig að koma út í bíl og ég hélt annaðhvort að eitthvað hefði komið fyrir börnin eða pabba hans, sem hafði verið veikur. Hann segir mér að presturinn sé kominn heim og svo segir hann mér að pabbi sé dáinn. Ég trúði þessu ekki og fór að hlæja; viðbrögðin voru svona skrítin. En þá hafði pabbi látist í vinnuslysi. Hann var að vinna í skurði við gamalt hús og fékk steintröppur yfir sig og lést samstundis.“

Fer frá þremur litlum börnum

Þriðja barnið fæddist og það var nóg að gera.
„Ég drakk aldrei á meðgöngu og drakk í raun bara þegar eitthvað var um að vera. En svo þegar yngsta barnið var eins og hálfs, tveggja ára fannst mér ég vera orðin svo stór og mikil. Ég kemst í samband við einhvern sem lætur mig hafa ólöglegar brennslutöflur sem innhalda efedrín. Ég byrja bara að bryðja þetta og áður en ég veit af er ég farin að taka miklu meira en ég átti að gera. Ég svaf ekki á nóttunni og mætti ósofin í bankann. Þetta er bara spítt. Og þarna gerist eitthvað innra með mér. Alkóhólisminn minn fer á eitthvert annað stig. Ég fer að verða mjög eirðarlaus og sótti mikið suður. Ég verð óheiðarleg í hjónabandinu. Ég fór að ljúga til að komast suður að djamma. Þarna er ég með þrjú lítil börn en ég þurfti að komast út af heimilinu,“ segir Anna María og segist á þessum tíma ekki hafa gert sér neina grein fyrir því að efnið sem hún var að taka væri í raun bara eiturlyf.

„Þetta voru bara megrunartöflur! Og ég grenntist, trúðu mér.“

Anna María segist hafa verið á milli tannanna á fólki í litla þorpinu.
„Ég er tekin fyrir ölvun við akstur og fólk fer að taka eftir breytingum á mér. Það fer að verða miklu styttri í mér þráðurinn gagnvart börnunum og þau voru farin að fara í taugarnar á mér. Ég varð allt önnur manneskja. Ég var farin að mæta illa í vinnu og yfirmaður minn tók mig tali og spurði: „Myndir þú telja að þú værir veik fyrir víni?“ Ég neitaði því. Ég sá þetta ekki; ég sá ekki vandamálið,“ segir Anna María, sem segist þá hafa viljað skilnað.

„Þessi maður elskaði mig og gerði allt fyrir mig og er yndislegur maður. En ég vildi bara skilja og sagðist ætla að flytja með börnin suður, en þar átti ég ekkert bakland. Móðir mín var eins og hún var og pabbi var dáinn,“ segir hún.

„Eiginmaðurinn sagði að það kæmi ekki til greina að ég tæki börnin. Það endar svo þannig að ég labba út af heimilinu frá manninum mínum og þremur litlum börnum. Þetta er svo sorglegt. Ég fór bara suður að djamma,“ segir Anna María og felur andlitið í höndum sér.
Minningin er sár.

Við tók ellefu ára fyllerí

Eftir nokkra mánuði í höfuðborginni var þrýst á Önnu Maríu um að gera eitthvað í sínum málum.
„Ég fór inn á Vog í desember 1999, þá 27 ára gömul. Ég var bara að drekka á þessum tíma og ekki farin að nota eiturlyf. Þarna fer ég í mína fyrstu meðferð. Ég man bara að ég sá ekki vandamálið heldur var ég bara að slökkva elda. Ég veit ekki hvað var að gerast með mig; hvar var móðir barnanna, hvar var Anna María? Ég kom inn á Vog og fannst ég ekki passa þar inn. Ég var sett í hóp og öðrum megin við mig var maður sem var af Litla-Hrauni og hinum megin róni sem ég hafði oft séð í bænum. Ég klára samt heila meðferð, fer á Vík en viku eftir að ég kom út datt ég í það. Ég tók þetta ekki alvarlega. Mánuði seinna er ég aftur komin í meðferð og þar kynnist ég manni. Ég hafði aldrei séð svona sætan strák.“

Af Vogi lá leiðin á Vík og þaðan á áfangaheimili fyrir konur. En stuttu seinna fer Anna María að búa með þessum manni sem hún hafði fallið svona kylliflöt fyrir.

„Það komu strax rauð flögg. Eftir nokkra mánuði edrú fórum við út á land og duttum bara í það. Og við tekur ellefu ára fyllerí. Í ellefu ár. Hann kynnir mig fyrir hörðum efnum. Ég byrjaði að nota amfetamín, sem varð svo efnið mitt. Ég hætti alveg að drekka áfengi og fer bara að nota fíkniefni og það á hverjum einasta degi. Ég er þarna inn og út úr vinnum, enda oft rekin. Á þessum ellefu árum fluttum við oft. Þetta samband einkenndist af svakalega mikilli geðveiki, öskrum og slagsmálum. Ég get ekki lýst þessu, þetta var viðbjóður. Hann lagði oft á mig hendur og ég kom mér ekki út úr þessu sambandi. Ég var með ótrúlega lítið sjálfstraust og lítil einhvern veginn. Mig langaði svo mikið út úr þessu sambandi og að verða edrú fyrir börnin mín. Ég var oft ekki í ástandi til að taka börnin aðra hverja helgi,“ segir hún og segist hafa reynt að taka þau þegar hún gat. Í dag þakkar Anna María fyrir að börnin hafa alltaf átt yndislegan föður og stjúpmóður sem er þeim eins og önnur móðir.

Anna María er afar þakklát að geta verið edrú og …
Anna María er afar þakklát að geta verið edrú og til staðar fyrir börn sín og barnabörn. mbl.is/Ásdís

„Þessi neysla er eitt stórt áfall. Stærsta áfallið er að ég skuli ekki hafa getað verið til staðar fyrir börnin mín. Alltaf þegar þau komu var ég uppfull af sektarkennd, skömm og sorg.“ 

Allir búnir að loka á mig

Árið 2012 lauk loks þessu ofbeldissambandi.
„Þegar við hættum saman breyttist neyslan mín og ég átti erfitt með að horfast í augu við raunveruleikann. Ég fór að taka inn róandi lyf og svefntöflur. Eins tók ég tímabil þar sem ég prófaði ýmis eiturlyf, en alltaf var amfetamínið til staðar. Lífið var hræðilega erfitt og ég sá börnin mín sjaldan. Þá var öllum orðið ljóst hvað ég var orðin veikur alkóhólisti og allir búnir að loka á mig. Ég umgekkst bara fólk í neyslu og kunni varla að eiga eðlilegar samræður. Það snerist allt um fíkniefni og glæpi. Ég er bara komin inn í þannig líf.“ 

Fór að biðja til guðs

„Aðfangadagskvöld 2013 er ég ein heima. Börnin vildu ekki tala við mig. Ég var í mikilli sjálfsvorkunn en sjúkdómurinn hafði komið mér á þennan stað,“ segir hún.

„Ég verð svo fertug milli jóla og nýars 2013 og fer inn í meðferð 13. janúar 2014. Gjörsamlega búin á því. Ég var mjög vonlaus og í mikilli vanlíðan. Ég fer upp á Vík og klára meðferðina. Þetta var langbesta meðferð sem ég hef farið í. Ég hef alltaf haft mína barnatrú og í þessari meðferð tók ég guð aftur inn í líf mitt og fer að biðja. Ég bað faðirvorið og bað guð að taka frá mér fíknina. Að ég fengi heimili þegar ég kæmi út úr meðferð. Ég átti ekkert heimili; var búin að missa íbúðina, en fékk inni á áfangaheimilinu Draumasetrinu. Ég kom út og var ofboðslega hrædd; ég kunni ekkert að vera edrú. Á Draumasetrinu upplifði ég mikinn kærleika. Ég var svo tætt og brotin. Elín og Óli sem reka Draumasetrið umvöfðu mig kærleika,“ segir hún en Anna María bjó þar í þrjú ár.

„Það bjargaði lífi mínu. Ég hélt í raun ekki að ég gæti orðið edrú en óskaði einskis heitar; ég þráði að verða heilbrigð móðir fyrir börnin mín.“

Saman eftir fyrsta rúntinn

Mikil vinna var fram undan. Anna María tók edrúmennskuna föstum tökum og stundaði AA-fundi og fann sig fljótt á kvennafundum sem hún stundar enn vikulega og jafnvel oftar. Einnig fékk hún mikla hjálp hjá geðlækni.

„Áður átti ég enga vinkonur en á þessum kvennafundum hef ég eignast mínar bestu vinkonur. Þær eru eins og systur mínar. Ég fer svo í þriggja ára endurhæfingu, í Grettistak sem er endurhæfingarúrræði fyrir fíkla, þaðan í Hringsjá, sem er starfs- og námsendurhæfing. Eftir það fékk ég vinnu á læknastöð og hef unnið þar í þrjú ár. Nú er ég í góðri vinnu og er virkur þjóðfélagsþegn,“ segir Anna María, sem fékk sér íbúð í Vesturbænum þar sem hún hefur búið síðustu fjögur árin.

„Ég á fallegt heimili í dag,“ segir Anna María en á svipuðum tíma og hún var að klára endurhæfinguna kynntist hún núverandi unnasta sínum, Ara Þorsteinssyni.

Ari Þorsteinsson og Anna María eru með fjallabakteríuna á háu …
Ari Þorsteinsson og Anna María eru með fjallabakteríuna á háu stigi. Ljósmynd/Aðsend

„Ég kynntist honum á AA-fundi og varð svo heilluð af því hvað hann talaði fallega um mömmu sína. Ég sá hann aftur viku seinna og fann að mig langaði svo að kynnast þessum manni. Ég taldi í mig kjark og sendi honum vinabeiðni og svo skilaboð. Hann svaraði strax að hann nennti ekki að spjalla í gegnum tölvu og býðst til að sækja mig. Við fórum á rúntinn og við höfum verið saman síðan,“ segir hún en nýlega festi parið kaup á fallegri íbúð, þeirri fyrstu sem Anna María eignast.

Við eigum allar séns

Sjö ár eru nú liðin frá örlagaríka janúardeginum 2014 þegar Anna María steig inn á Vog, buguð á sál og líkama.

„Síðan þá hef ég verið í mikilli sjálfsvinnu, og það hefur alveg verið erfitt. Ég hef lagt mikið á börnin mín en vil trúa því að þau séu búin að fyrirgefa mér. Ég er þeim þakklát að hafa ekki gefist upp á mér þótt það hafi verið erfitt að vinna traust þeirra á ný. Ég á yndislega fallegt samband við þau í dag og á þessum tíma hef ég eignast þrjár ömmustelpur. Það er ómetanlegt að geta verið edrú og til staðar fyrir þær og ég er mikið með stelpurnar mínar. Elsta ömmustelpan gistir mjög oft hjá mér,“ segir Anna María og ljómar þegar hún talar um litlu ömmustelpurnar.

„Svo byrjaði ég fyrir tveimur árum að ganga á fjöll og það er mín ástríða. Ég fæ aldrei fíkn í eiturlyf, en ég fæ fíkn í að labba á fjöll,“ segir hún og brosir.

„Það er von fyrir konur sem eru búnar að brenna allar brýr að baki sér. Við eigum allar séns. Líf mitt í dag er svo fallegt. Ég á risastóran guð sem ég tala mikið við. Ég er í góðu sambandi við allt mitt fólk. Áður átti ég ekkert bakland, nema systur mína, sem stóð alltaf með mér eins og klettur. Líf mitt var gjörsneytt gleði en ég hef fundið aftur hamingju. Eftir allt þetta svartnætti í öll þessi ár er lífið ótrúlega bjart.“

Lesa má viðtalið í heild sinni hér á mbl.is í vefútgáfu Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert