Verið er að deiliskipuleggja jörðina Brúarhvamm sem er rétt austan við Geysi og er áformað að byggja þar allt að 100 herbergja hótel ásamt gistiheimili með 10 smáhýsum.
Kvótasalan á jörðina Brúarhvamm sem er við leiðina á milli Geysis og Gullfoss. Svavar Þorsteinsson framkvæmdastjóri segir að landið sér einstaklega vel staðsett og þaðan sé fallegt útsýni. Því sé upplagt að bjóða ferðamönnum að sækja staðinn heim. Í raun sé ekki hægt að sleppa þessu tækifæri.
Svavar segir að uppbyggingin sé langtímaverkefni, verði tekin fyrir í áföngum á næstu þremur til fimm árum. Hann er viss um að ferðaþjónustan í landinu verði komin aftur á skrið á þeim tíma.
Fyrirhuguð uppbygging er sunnan Biskupstungnabrautar og skammt austan við bakka Tungufljóts. Hótelið verður við leiðina á milli Geysis og Gullfoss og er Brúarhvammur skammt frá Geysi. Á Geysi er stórt hótel og einnig er hótel við Gullfoss. Telur Svavar að spurn sé eftir fleiri herbergjum á þessu svæði.