Þakklátur Krafti fyrir hjálpina

Almennt gekk þetta vel og eftir fjórðu lyfjagjöfina var ég …
Almennt gekk þetta vel og eftir fjórðu lyfjagjöfina var ég laus við meinið. Fréttirnar urðu stöðugt jákvæðari, segir Jóhann Björn sín um veikindi sín og bata. mbl.is/Sigurður Bogi

Hjálpin býðst ef þú leitar. Fólki með krabbamein stendur margvísleg aðstoð til boða og að fenginni reynslu þeirri er ég þakklátur, nú þegar lífið er að komast aftur á beina braut,“ segir Jóhann Björn Sigurbjörnsson. Hann er einn þeirra sem nú segja sína sögu í tengslum við vitundarvakningu og fjáröflunarherferð sem Kraftur – stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, stendur fyrir.

Greining fékkst fljótt

Rúmt ár er síðan Jóhann greindist með eitlakrabbamein sem greiðlega gekk að vinna bug á. Að svo giftusamlega tókst til, þakkar hann hve greining fékkst fljótt og eins því hve vel góðir læknar sinntu hans málum.

Jóhann Björn er fæddur í febrúar 1995 og er frá Sauðárkróki. Á haustdögum 2019 var hann oft með hita og slappur, en vissi þó í fyrstu ekki nákvæmlega hverju sætti. Við athugun lækna komu í ljós stækkanir á eitlum og seinna kýli á hálsi. Svo bættist við hálsbólga, kvef og fleira slíkt og þannig var gangurinn fram á nýja árið. Svo varð úr að Jóhannes fór þann 10. febrúar í fyrra til lækna á Landspítalanum sem hann hafði áður leitað til og óskaði aðstoðar. Úr varð að tekið var blóðsýni sem sýndi hækkandi gildi ýmissa þátta. Frekari rannsóknir leiddu alvarleika máls í ljós og þann 18. febrúar boðaði læknir Jóhann til fundar fáeinum dögum síðar þar sem honum voru svo borin hin alvarlegu tíðindi. Strax voru lögð drög að lyfjameðferð sem svo hófst 16. mars.

Lyfin tóku úr mér allt líf

„Auðvitað er óskaplegt áfall að greinast með krabbamein og ég var margar vikur í afneitun. Sumt sem gerðist á þessum tíma er alveg í móðu. Staðreyndirnar voru samt strax ljósar; meinið var í öllum eitlum ofan við brjóst en samt mjög viðráðanlegt,“ segir Jóhann Björn sem fór í fyrstu lyfjagjöfina á Landspítalanum við Hringbraut í Reykjavík þann 16. mars. Upphaflega stóð til að þær yrðu jafnan á tveggja vikna fresti, en vegna sýkinga sem upp komu leið heldur lengra á milli þeirra en til stóð.

„Lyfjagjöfunum fylgdu alltaf sýkingar og eftir þá þriðju fékk ég bólgu í botnlanga sem þurfti að fjarlægja. En almennt gekk þetta vel og eftir fjórðu lyfjagjöfina var ég laus við meinið. Fréttirnar urðu stöðugt jákvæðari. Áfram var þó haldið svo mál færu ekki á versta veg – og síðasta lyfjagjöfin var 29. júlí í fyrra. Lokasprettur meðferðarinnar var reyndar ansi stífur, því þá fékk ég sýkingar í maga og var mjög þrekaður því lyfin höfðu bókstaflega tekið úr mér allt líf. Ég var dögum saman í einangrun á Landspítalanum og þar einn með hugsunum mínum, sem voru þó jákvæðar. Þegar þarna var komið sögu vissi ég að lífið ætlaði að gefa mér annað tækifæri og því ágætt að velta fyrir sér hvað gera skyldi í framtíðinni.“

Íþróttirnar hjálpa

Jóhann Björn hefur alla tíð verið virkur í íþróttum. Æft spretthlaup, verið meðal fremstu manna landsins í 100, 200 og 400 metra hlaupi og keppt á ýmsum mótum, bæði heima og í útlöndum svo sem á EM og Smáþjóðaleikum. „Íþróttirnar hjálpuðu mér mikið; bæði að því leyti að ég er í þokkalegu formi og svo hafði ég meðan á meðferðinni stóð að því að keppa að geta aftur farið að æfa,“ segir Jóhann sem þegar á meðferðinni stóð setti sig í samband við Kraft og fékk þar góða hjálp. Stuðningur sálfræðings skipti miklu og sömuleiðis aðstoð við lyfjakaup, það er Kraftur borgaði það sem upp á vantaði hjá Sjúkratryggingum Íslands.

„Sá stuðningur skipti miklu, enda alveg hellingur af þúsundköllum. Að geta alltaf leitað til Krafts var þýðingarmikið. Eftir á að hyggja hefði ég sjálfsagt átt að leita meira eftir jafningjastuðningi; það er hjálp frá fólki sem hefur gengið í gegnum sambærilega reynslu og er tilbúið að miðla af sinni reynslu. Hvaða tilfinningar fara í gegnum hugann við svona aðstæður er ótrúlegt; hræðsla og þá er gott að fá stuðning. Einnig voru læknarnir mínir á Landspítalanum, þau Elín Anna Helgadóttir og Albert Sigurðsson, einstök og eins allt starfsfólkið á deild 11B á Landspítala,“ segir Jóhann sem kveðst nú vera kominn á nokkuð góðan stað í tilverunni. Veikindin virðast að baki.

Styrkur vex

„Ég er byrjaður að hlaupa, fer út á hverjum degi og þótt vegalengdirnar séu ekki alltaf langar þá finn ég að styrkurinn vex,“ segir Jóhann Björn sem er nemi í rafvirkjun og starfar hjá Tengli ehf., hjá Reykjavíkurdeild fyrirtækis í eigu Kaupfélags Skagfirðinga. Þar vinnur okkar maður hálfan daginn, en stefnir í fullt starf innan tíðar rétt eins og heilsa hans leyfir.

Veikir þurfa mikinn stuðning

Markmið herferðar Krafts, sem stendur til 4. febrúar, er að vekja athygli á hversu marga krabbamein hefur áhrif á; hinn sjúka en einnig alla fjölskyldu viðkomandi og nánasta vinahóp. Um 70 manns á Íslandi, það er ungt fólk, greinast með krabbamein á hverju ári. Þetta fólk þarf mikinn stuðning í veikindum sínum og bataferli og til að geta sinnt því hlutverki stendur Kraftur nú fyrir vitundarvakningu og fjáröflun. Í því skyni eru nú meðal annars seldar sérframleiddar húfur með slagorðunum Lífið er núna. Einnig er hægt að styrkja félagið beint, til dæmis með mánaðarlegum greiðslum.

Lokahnykkur átaksins verður 4. febrúar nk., á alþjóðadegi gegn krabbameinum. Þá verður settur upp rafrænn viðburður með listafólki sem hægt verður að horfa á í gegnum netstreymi þar sem miðað verður til áhorfenda hvernig þeir geta styrkt starfið hjá Krafti. Viðburðurinn er í samstarfi við Vetrarhátíð Reykjavíkur og verður nánar sagt frá honum síðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert