„Það er alveg hægt að reka svona verslun ef þú ert nógu duglegur. Þetta er erfiður bissness og það þarf að gera mikið sjálfur,“ segir Axel Sigurðsson, nýr eigandi Pétursbúðar í Vesturbæ Reykjavíkur.
Axel er 29 ára og keypti verslunina ásamt fjölskyldu sinni fyrir skemmstu. Hann hefur unnið í Pétursbúð síðustu tvö ár og þekkir því vel til rekstursins. Axel á að baki tólf ára feril í verslunarstörfum og starfaði til að mynda lengi í Bónus.
Fyrri eigendur höfðu rekið Pétursbúð frá árinu 2006 en auglýstu verslunina til sölu vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Verslun hefur verið rekin á neðri hæð hússins á Ránargötu 15 frá því það var byggt árið 1928. Upphaflega var rýminu skipt í kjörbúð og mjólkurbúð, síðan var einnig fiskbúð í áföstu rými og svo lítil verslun en með tímanum varð úr ein heil kjörbúð. Nafnið Pétursbúð mun hafa fylgt búðinni síðustu þrjá áratugina og nýtur hún mikilla vinsælda meðal fólks í miðbænum og Vesturbænum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.