300 þúsund sýni á 10 mánuðum

Ómar Brynjólfsson er framkvæmdastjóri AVIÖR, sem er sérdeild innan Öryggismiðstöðvarinnar.
Ómar Brynjólfsson er framkvæmdastjóri AVIÖR, sem er sérdeild innan Öryggismiðstöðvarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Sérþjálfað starfsfólk frá Öryggismiðstöðinni hefur séð um stóran hluta af þeim verkefnum sem snúa að skimunum fyrir kórónuveirunni, bæði á landamærunum á Keflavíkurflugvelli og í gamla Orkuhúsinu á Suðurlandsbraut. Einnig hefur það komið að skimun HSS í Reykjanesbæ. Starfsfólk Öryggismiðstöðvarinnar vinnur þar náið með hjúkrunarfræðingum og læknum frá heilsugæslustöðvum.

„Rúmlega 60 starfsmenn okkar hafa sinnt þessu viðamikla verkefni síðustu mánuði ásamt hjúkrunarfræðingum og læknum frá heilsugæslustöðvum. Það eru um 20 starfsmenn á hverri vakt. Starfsmenn okkar sem sinntu sérhæfðri öryggisgæslu í tengslum við flugvernd á Keflavíkurflugvelli færðust í þetta verkefni þegar flugsamgöngur lögðust að miklu leyti af í fyrravor. Starfsfólk okkar sem sinnir þessu verkefni var sérstaklega þjálfað í Covid-sýnatökum og hefur orðið mjög mikla reynslu. Þannig að starfsfólk, sem var áður fyrr sérþjálfað í viðtalstækni fyrir öryggisviðtöl og eftirlit á Keflavíkurflugvelli, tók þarna á sig algjörlega ný verkefni og hefur leyst þau frábærlega,“ segir Ómar Brynjólfsson, framkvæmdastjóri AVIÖR, sem er sérdeild innan Öryggismiðstöðvarinnar og sér um verkefnið fyrir hönd fyrirtækisins.

Gátu varið störf á erfiðum tímum

„Við höfum á þessum tímapunkti tekið yfir 300 þúsund sýni á um 10 mánuðum sem er ekkert smáræði. Þetta stóra og viðamikla verkefni hefur gengið mjög vel í alla staði. Það er mjög gott samstarf og samstaða á milli þeirra aðila sem að verkefninu koma sem er auðvitað afar mikilvægt. Langflestir þeirra sem koma í sýnatökur eru til fyrirmyndar og eru í raun þakklátir fyrir þessa þjónustu. Fólk fer í langflestum tilvikum eftir fyrirmælum og er kurteist við starfsfólk. Það hjálpar mikið og gerir allt ferlið auðveldara fyrir alla. Og allir eru að sjálfsögðu með grímur. Það heyrir algerri undantekningu til ef eitthvað bjátar á en þá er reynt að leysa það á farsælan hátt,“ bætir Ómar við.

„Með því að færa til starfsfólk okkar, sem starfaði áður við öryggisgæslu tengda fluginu í Leifsstöð, yfir í þetta verkefni hefur fyrirtækið getað varið störf og haldið starfsfólki í vinnu á þessum erfiðu tímum í samfélaginu og við erum mjög ánægð með það. Þetta leit satt best að segja ekki vel út um tíma þegar allar flugsamgöngur voru að stöðvast. En eins og segir þá opnast oft nýjar dyr þegar einar lokast,“ segir Ómar enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert