Niðurstaða frumathugunar Framkvæmdasýslu ríkisins á valkostum fyrir sameiginlega björgunarmiðstöð á höfuðborgarsvæðinu er sú að allir viðbragðsaðilar verði saman í einu húsnæði með lögreglustöð. Þessi kostur er talinn uppfylla best þau markmið sem hafa verið sett fyrir verkefnið. Hin nýja miðstöð fyrir allt Ísland hefur fengið skammstöfunina HVH, húsnæði viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu.
Seint á síðasta ári skilaði Framkvæmdasýsla ríkisins til fjármálaráðuneytisins skýrslu um frumathugunina. Hún er mikil að vöxtum, 75 blaðsíður. Morgunblaðið óskaði eftir því að fá skýrsluna afhenta og fékk hana senda í vikunni.
„Þar sem vinna að málinu er yfirstandandi og enn ekki búið að ákveða framtíðarstaðsetningu eða ganga frá samkomulagi við aðila um lóð eða byggingu undir starfsemina hafa upplýsingar sem á þessu stigi eru viðkvæmar verið fjarlægðar vegna almannahagsmuna,“ sagði í tölvupósti ráðuneytisins.
Þegar Morgunblaðið fékk skýrsluna í hendur hafði verið strikað yfir með svörtu á 30 síðum af 75, mismikið á hverri síðu.
Framkvæmdasýsla ríkisins auglýsti í lok júní í fyrra eftir upplýsingum um 30 þúsund fermetra lóð eða húsnæði fyrir sameiginlega aðstöðu löggæslu- og viðbragðsaðila landsins. Þetta eru: Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Ríkislögreglustjóri, Landhelgisgæslan, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Tollgæslan (Skatturinn), Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Neyðarlínan 112. Flestar þessar stofnanir eru nú að hluta til með aðsetur í björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð, en ekki á einu gólfi. Björgunarmiðstöðin byggðist upp í áföngum á árunum 1996-2006.
Fram hefur komið að húsnæðið þar þyki óhentugt, þrengsli og skipulag hússins hafi valdið óhagræði og staðið í vegi fyrir umbótum. Þetta hafi berlega komið í ljós undanfarin misseri á tímum kórónuveirunnar. Ljóst hafi verið frá upphafi að Skógarhlíðin yrði ekki framtíðarhúsnæði miðstöðvarinnar.
Mikil greiningarvinna liggur að baki skýrslu Framkvæmdasýslunnar. Stýrihópur stjórnaði verkinu og að auki komu að vinnunni hátt í eitt hundrað fulltrúar viðbragðsaðila, ráðgjafar og verkefnahópar. Afstaða til HVH hafi verið jákvæð hjá öllum aðilum, þar á meðal öllum forstöðumönnum einstakra viðbragðsaðila.
Fram kemur í skýrslunni að átta aðilar hafi skilað inn tillögum. Reykjavíkurborg hafi skilað inn bréfi yfir mögulegar lóðir í hennar umsjá. „Þeir aðilar sem skiluðu inn fyrir utan Faxaflóahafnir og Reykjavíkurborg lýstu mestum áhuga á samstarfi um þróun, hönnun, byggingu, fjármögnun, eignarhald og rekstur húseignar á grunni langtímasamninga,“ segir í skýrslunni.
Mynd er birt í skýrslunni af mögulegum svæðum og lóðum en búið er að strika yfir hana í því eintaki sem Morgunblaðið fékk sent.
Niðurstaða greiningarinnar er sú að svæði 2 var metið álitlegast hvað varðar þær kröfur sem gerðar voru til lóða, en einnig er strikað yfir það. Þó má ljóst vera að svæði 2 er ekki langt frá miðborg Reykjavíkur, því sú krafa er gerð að lögregla komist á innan við átta mínútum frá HVH að alþingisreit, miðbæ og Stjórnarráði.
Upplýst var á stjórnarfundi Faxaflóahafna í nóvember í fyrra að viðræður stæðu yfir við Framkvæmdasýslu ríkisins um lóð á milli Kleppsspítala og Holtagarða undir mögulega björgunarmistöð. Þegar hin nýja skýrsla verður kynnt án yfirstrikana kemur í ljós hvort þetta reynist vera svæði 2.
Sömuleiðis er strikað yfir allar mögulegar kostnaðartölur, en áætluð þörf sameiginlegs húsnæðis var metin um 21.100 fermetrar. Kaup á nýjum búnaði og kostnaður við flutninga gæti orðið 1.500 milljónir.
Til móts við stofnkostnað á fasteign og kaup á búnaði má ætla að selja megi fasteignir á Hverfisgötu og/eða Tryggvagötu, en fasteignamat þeirra er nú rúmar 5.000 milljónir. Áætlanir miðast við undirbúnings- og framkvæmdatíma árin 2021 til 2025, eða fimm ár.
Að fengnu samþykki samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir (SOF) leggur Framkvæmdasýsla ríkisins til að farið verði með fyrsta valkost í næsta skref opinberrar framkvæmdar, sem er áætlunargerð, segir í lok skýrslunnar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. janúar.