Gönguskíðaæði grípur landann

Gönguskíði njóta nú vinsælda enda er gott að komast út …
Gönguskíði njóta nú vinsælda enda er gott að komast út og hreyfa sig nú á tímum Covid. Sala á gönguskíðum fer fram úr björtustu vonum. Haraldur Jónasson/Hari

Halla Haraldsdóttir, formaður skíðagöngufélagsins Ullar, kolféll fyrir gönguskíðum fyrir fjórum árum.

Þegar Halla er ekki að ganga á skíðum í brakandi blíðu er hún markaðsstjóri hjá Keahótelum. Hún veit fátt betra en að vera úti undir beru lofti og ganga á skíðum með góðum vinum.

„Maðurinn gaf mér gönguskíði í jólagjöf fyrir nokkrum árum og þá fór ég vestur á Ísafjörð á flott námskeið hjá Hólmfríði Völu og áhuginn kviknaði. Ég tók svo þátt í Landvættunum hjá Ferðafélagi Íslands tveimur árum síðar og þar er skíðaganga ein af þrautunum. Og síðan hef ég haldið áfram á gönguskíðum og kynnist Ulli og fer svo að starfa með stjórninni,“ segir Halla sem endaði svo sem formaður.

Halla Haraldsdóttir veit fátt skemmtilegra en að njóta útiverunnar á …
Halla Haraldsdóttir veit fátt skemmtilegra en að njóta útiverunnar á gönguskíðum.

„Ég fer mikið á gönguskíði, bæði á kvöldin og um helgar þegar er opið í Bláfjöllum. Það er hægt að velja sér hring eftir því hvað maður vill fara langt. Skíðasvæðin sjá um að spora brautirnar. Ég er líka á skíðum og fjallaskíðum og mikið í útivist. Nýjasta hjá mér er að prófa utanbrautargönguskíði. Ég á gott safn af skíðum,“ segir hún og brosir.  

Rauðar kinnar og kakó

Á árum áður var oft litið á gönguskíðaíþróttina sem heldur púkalega og aðeins fyrir miðaldra fólk. Halla segir viðhorfið í dag allt vera breytt.

„Þetta er fyrir fólk á öllum aldri og líka börn,“ segir hún.

„Þetta er mikil tækni og rosalega skemmtilegt og fólk ræður sínum hraða. Þetta er mjög góð æfing og reynir á allan líkamann. Það er hægt að fá harðsperrur á stöðum sem þú vissir ekki að þú gætir fengið harðsperrur á,“ segir hún og brosir. 

„Það hefur orðið sprenging í íþróttinni núna síðustu tvö þrjú árin hjá fólki, sérstaklega konum.“

Veistu hvað veldur þessari sprengingu?

„Það hefur ákveðin viðhorfsbreyting átt sér stað. Fólk hugsar meira um heilsuna, að stunda útiveru og gera það sem því finnst skemmtilegt. Svo er það þannig að þeir sem byrja geta ekki hætt. Og fá fleiri með sér. Það er gríðarleg þátttaka í námskeiðum.“

„Þetta er sprengja. Á góðum degi koma yfir þúsund manns á gönguskíði í Bláfjöllum. Og hátt í þúsund manns eru skráðir á skíðagöngunámskeið hjá ýmsum námskeiðshöldurum, þar á meðal hjá okkur í Ulli.“

Eins og að vera í paradís

Sjúkraþjálfarinn Gígja Þórðardóttir hefur stundað gönguskíði í tvö ár og veit fátt skemmtilegra. Hún er strax farin að keppa með góðum árangri.

„Kærastinn minn hafði æft gönguskíði og þarna var sportið aðeins farið að glæðast og það mátti sjá miðaldra fólk í spandex-göllum á gönguskíðum. Mér finnst gaman að prófa eitthvað nýtt en ég hef alltaf verið íþróttaálfur. Þarna prófaði ég skíðin og smitaðist um leið,“ segir Gígja sem hafði alltaf átt svigskíði.

„Ég heillaðist algjörlega frá fyrstu stundu. Ég hef alltaf haft mikla þörf fyrir að hreyfa mig og þessi hreyfing nærði mig á svo margan máta. Útiveran er nauðsynleg og hreyfingin hentar mörgum aldurshópum. Hún reynir á þol, styrk og samhæfingu. Ég upplifði bara vá!“ segir Gígja.

Vakning í sportinu

Gígja er mikil keppnismanneskja og þrátt fyrir að eiga ekki langan gönguskíðaferil að baki hefur hún tekið þátt í tveimur mótum.

„Ég tók þátt í fyrra í Fjarðargöngu á Ólafsfirði sem var mjög gaman og svo í Strandagöngunni á Hólmavík,“ segir Gígja og segir að vel hafi gengið á mótunum.

„Það er rosaleg vakning í sportinu. Ég er einmitt að skoða að kaupa mér utanbrautarskíði líka. Þá get ég farið utan troðinna slóða. Við ætlum að fara í ferðir og draga á eftir okkur púlku og læra að tjalda í snjó. Það er mjög spennandi. Eitt leiðir af öðru. Áhugi okkar á útivistarsporti hefur aukist þannig að við skráðum okkur í Landkönnuði hjá Ferðafélagi Íslands og munum læra hvernig hægt er að bjarga sér úti í íslenskum vetraraðstæðum. Finnst þér það ekki spennandi! Ég fæ kitl í magann,“ segir hún og hlær.

Ekki lengur púkó

Er þetta ekki lengur hallærislegt sport miðaldra fólks?

„Nei, nú er þetta í tísku. Ég man sjálf eftir því þegar ég var að fara í Bláfjöll á svigskíði að mamma og pabbi áttu gönguskíði. Mér fannst ekki mjög smart að horfa á eftir þeim, í stuttum buxum og háum sokkum,“ segir hún og hlær.

Sjúkraþjálfarinn Gígja Þórðardóttir segir gönguskíðin hafi bjargað geðheilsunni nú á …
Sjúkraþjálfarinn Gígja Þórðardóttir segir gönguskíðin hafi bjargað geðheilsunni nú á tímum Covid. Hún er heltekin af sportinu.

„Það eru margir í kringum mig á gönguskíðum, meira að segja mamma sem er á áttræðisaldri. Þetta er búið að bjarga geðheilsunni núna í Covid, að geta verið úti að hreyfa sig. Að fara á gönguskíði í Heiðmörk er eins og að vera í paradís. En þessa dagana vantar snjóinn!“

Heldur betur sprengja

Óskar Magnússon hjá Sportvali segir sölu á gönguskíðabúnaði hafa verið ótrúlega undanfarna mánuði.

„Það hefur heldur betur verið sprengja. Það má segja að með Landvættunum hafi fólk farið að uppgötva gönguskíðin og vinkonur hafa dregið hver aðra af stað. Ég opnaði búðina í desember 2018 og síðan þá hefur verið sprenging og sala farið langt fram úr væntingum,“ segir Óskar sem segist hafa selt milli 300 og 400 pör af skíðum í fyrra og annað eins nú á síðustu þremur mánuðum.

„Ég er að reyna að vera á jörðinni þegar ég kaupi inn en það kemur í bakið á mér. Og núna í Covid hafa lyftur ekki verið opnar og þá var það eina sem hægt var að gera til að svala skíðaþörfinni að fara á gönguskíði. Svo kemst enginn í skíðafrí til útlanda þannig að það eru nokkrir þættir sem spila inn í. Mesta aukningin er í utanbrautarskíðum,“ segir Óskar.

Spurður um meðalverð á startpakka segir hann það vera um hundrað þúsund krónur.

Vel yfir þúsund skíði

Magnús Magnússon, sölustjóri hjá Everest, tekur í sama streng.

„Það hefur verið gríðarleg aukning og í raun uppgangur í sportinu síðustu fimm ár. En það er sprenging núna. Ræktin hefur verið lokuð og fólk í útivistargír,“ segir Magnús og segir þau hafa selt óvenjumikið af skíðum í vetur.

„Þetta er gríðarlegt magn. Við höfum selt vel yfir þúsund skíði á þessum vetri,“ segir hann og segir að sömu sögu mætti segja um alla Evrópu. Gönguskíðabakterían smitast víða.

„Margir birgjar hafa ekki undan.“

Magnús segist selja mest til fólks yfir 35 ára en farið sé að bera á yngra fólki líka.

„Fólk er farið að taka börnin sín með og þetta er að verða fjölskyldusport líka. Þetta er svo heilbrigð hreyfing.“

Nánar er fjallaðu um gönguskíðaæði Íslendinga í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert