Lögregla stöðvaði umferð í Sundlaug Akureyrar

Sundlaugin á Akureyri.
Sundlaugin á Akureyri. mbl.is/Sigurður Bogi

Lögreglan á Akureyri bannaði starfsmönnum Sundlaugar Akureyrar að hleypa fleiri gestum í laugina í gær eftir að í ljós kom að tveggja metra reglan var virt að vettugi á ákveðnum stöðum í lauginni.

Samkvæmt sóttvarnareglum hefur laugin leyfi til að taka við ákveðið mörgum gestum og var fjöldi þeirra undir hámarksfjölda þegar lögreglu bar að garði. Gestirnir leituðu þó margir í sömu staðina í lauginni, aðallega heitu pottana, og var tveggja metra reglan því virt að vettugi.

Lögreglan meinaði því starfsmönnum laugarinnar að taka við fleiri gestum þangað til úr þessu var bætt. Þetta staðfestir fulltrúi lögreglunnar á Akureyri í samtali við mbl.is.

Skýrsla verður skrifuð um málið og í kjölfarið tekur við hefðbundið ferli þar sem lagt verður mat á það hvort ástæða sé til að beita sektum.

Samkvæmt lögreglu var margt fólk í bænum um helgina. Lögregluþjónar fóru á alla veitingastaði bæjarins til að kanna hvort farið væri eftir sóttvarnareglum og víðast hvar fór starfsemin vel fram.

Tveggja metra reglan var virt að vettugi í Sundlaug Akureyrar …
Tveggja metra reglan var virt að vettugi í Sundlaug Akureyrar um helgina. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert