Alls voru 75 mál skráð í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun. Mikið var um útköll vegna heimilisofbeldis eða ágreinings á milli skyldra aðila og ónæðis frá samkvæmum. Tíu voru vistaðir í fangageymslu lögreglu vegna ýmissa mála.
Tilkynnt var um líkamsárás í Árbænum á tólfta tímanum. Þrír menn voru handteknir grunaðir um líkamsárás og brot á vopnalögum. Þeir voru vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Ekki er vitað um áverka árásarþola.
Maður var handtekinn í hverfi 104 laust fyrir klukkan eitt grunaður um líkamsárás. Hann var vistaður í fangageymslu. Ekki er vitað um áverka árásarþola.
Upp úr miðnætti óskaði leigubílstjóri aðstoðar lögreglu í hverfi 105. Farþeginn, ung kona, var farin inn í íbúð við vettvang. Er lögregla barði þar að dyrum kom unnusti konunnar til dyra og sagði hana ekki vera þar innandyra. Vitað er hver konan er og fer málið í kæruferil, að því er segir í dagbókinni.
Upp úr hálfellefu í gærkvöldi var par handtekið í íbúðarhúsnæði í hverfi 105. Parið er grunað um vörslu/sölu fíkniefna og var fólkið vistað í fangageymslu.
Tilkynnt var umferðaróhapp í Kópavogi um sexleytið í gærkvöldi. Eignatjón varð en enginn slasaðist. Sá sem olli tjóninu var handtekinn grunaður um ölvun við akstur og var hann vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Bifreið stöðvuð í hverfi 103 skömmu eftir miðnætti. Ökumaðurinn er grunaður um að hafa ekið yfir gatnamót gegn rauðu ljósi. Hann neitaði sök.
Nokkrir ökumenn voru einnig teknir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.