Sífellt ruglað saman

Arndís Halla og Ásta Birna kynntust við störf sín í …
Arndís Halla og Ásta Birna kynntust við störf sín í Grænlandssiglingum skemmtiferðaskipsins Ocean Diamond árið 2016 og áttu þar gott og hressandi samstarf með hléum fram að faraldri. Farþegar skipsins áttu í stökustu vandræðum með að þekkja þær í sundur eins og þær litu út við upphaf samstarfs síns og spunnust ýmis gamanmál af. Þess má geta að Arndís Halla er vinstra megin á myndinni. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta kom nú þannig til að ég bjó í 18 ár í Berlín í Þýskalandi og var að syngja þar í óperum og fleiru. Svo þegar ég flutti heim 2012 fór ég í einhverju bríaríi að vinna sem leiðsögumaður með þýska hópa fyrir Iceland ProTravel og út frá því, þegar Iceland ProCruises var stofnað, talaði Guðmundur Kjartansson við mig, hann er einn af eigendunum, og spurði hvort ég væri ekki til í þetta verkefni. Og þar sem ég er alltaf til í eitthvað skemmtilegt sló ég til og þannig byrjaði þetta.“

Þetta segir Arndís Halla Ásgeirsdóttir söngkona um skrautlegan feril sinn sem leiðsögumaður, söngkona og „Zodiac Driver“ á skemmtiferðaskipinu Ocean Diamond sem íslensk-þýska útgerðin Iceland ProCruises gerir út í siglingar með bandaríska, breska, þýska og fleiri þjóða ferðamenn umhverfis Ísland og Grænland.

Ocean Diamond, skemmtiferðaskip Iceland ProCruises, er þægilega smátt í sniðum, …
Ocean Diamond, skemmtiferðaskip Iceland ProCruises, er þægilega smátt í sniðum, 407 fet, sem gerir því kleift að leggjast að bryggju víða þar sem stærri skip þurfa að lóna á hafi úti og senda farþegana í land með smáfleyjum. Ljósmynd/Aðsend

Það var í einni þessara siglinga árið 2016 sem þær Ásta Birna Jónsdóttir, Skagfirðingur, þjónustustjóri Arion banka á Sauðárkróki og Blönduósi, bjarsigkona í Drangey og margt fleira reyndar, kynntust og hafa síðan marga grænlenska fjöruna sopið, síðast árið 2019, en siglingar hafa legið alveg niðri í heimsfaraldrinum. Þær stöllur féllust á að segja mbl.is af ferðum sínum um heimsins höf.

„Sagði já án þess að hugsa mig um“

Ferill Ástu Birnu í skemmtiferðasiglingum hófst dag nokkurn þegar hún lá veik heima í febrúar 2016. „Vinur minn hringdi þá í mig og spurði hvort ég vildi taka túra til Grænlands á móti honum á skemmtiferðaskipinu Ocean Diamond, hjá ferðaskrifstofunni Iceland ProCruises,“ segir hún frá. „Ég fann hvernig eftirvæntingin og spenningurinn æddu um æðarnar og ýtti sjálfsvorkunninni og þunglyndinu yfir veikindunum í burtu á augabragði og ég sagði já án þess að hugsa mig um.“

Þær Arndís Halla eru sammála um að starfið á skipinu sé mjög fjölbreytt, báðar eru þær leiðsögumenn og stjórnendur Zodiac-bátanna sem notaðir eru til að skjótast með farþega í land á þeim stöðum þar sem skipið leggst ekki að bryggju, eða í almennar skoðunarferðir, auk þess sem Arndís Halla syngur svo sem fyrr greinir.

Arndís Halla Ásgeirsdóttir hefur gert garðinn frægan með söng sínum …
Arndís Halla Ásgeirsdóttir hefur gert garðinn frægan með söng sínum hérlendis og erlendis. Í störfum sínum fyrir Iceland ProCruises er hún allt í senn, söngfugl, leiðsögumaður og stýrimaður á Zodiac-bátum. Ljósmynd/Aðsend

„Í fyrsta túrnum mínum flaug ég frá Keflavík til Kangerlussuaq, sem er á vesturströnd Grænlands, ásamt ferðamönnum og öðrum starfsmönnum sem voru að fara um borð í skipið,“ heldur Ásta Birna áfram um frumraun sína. „Ég þekkti engan og þetta var allt jafn nýtt fyrir mér og ferðamönnunum svo ég lét lítið fyrir mér fara og vonaðist til að enginn myndi uppgötva að ég væri starfsmaður og færi að reka mig á gat í einhverju spurningaflóði.“

Farþegarnir eru almennt um 200 í hverri ferð og hundrað manns í áhöfn, en Ocean Diamond er frekar lítið skip, rúm 400 fet að lengd, sem þær stöllur segja heppilegt að því leytinu að það geti lagst að bryggju mun víðar en stærri skemmtiferðaskip. Auk þess sé skipið sérstaklega styrkt til að þola siglingar þar sem ís er í hafi.

„Ég er bæði með svona Íslandskynningar-show, sem er svona „infotainment show“ getur maður sagt,“ segir Arndís Halla, „þar sem ég segi frá landi og þjóð á gamansaman hátt. Þar er ég að vinna með ljósmyndir frá Emil Þór Sigurðssyni, sjálfstætt starfandi ljósmyndara sem ég hef þekkt lengi og tekur stundum myndir fyrir okkur.

Arndís heilsar upp á einn af íbúum Ilulissat við vesturströndina.
Arndís heilsar upp á einn af íbúum Ilulissat við vesturströndina. Ljósmynd/Aðsend

Siglt er hringinn í kringum Ísland, en svo eru það Grænlandsferðirnar sem eru mun lengri, þetta er yfirleitt í ágúst, september, en hefur líka verið í júní og júlí. Þetta eru rosalega skemmtilegar ferðir, þá er siglt suður fyrir Grænland og svo upp með vesturströndinni alveg til bæjar sem heitir Uummannaq sem er mjög norðarlega. Á leiðinni er stoppað hingað og þangað, þetta eru allt mjög fámennir staðir, til dæmis Ilulissat þar sem íbúarnir eru bara örfá þúsund,“ bætir hún við.

Mikið púl en stórskemmtilegt

Grænlandsferðirnar verði lengstar á fjórðu viku sem eðlilega geti verið lýjandi enda dagskráin stíf. Almennt sé siglt að næturlagi en svo stoppað og farið í land yfir daginn, ýmist í heilan dag eða hálfan.

Ásta Birna kveður áhöfnina koma víða að og einhvern tímann hafi þær Arndís Halla talið saman 21 þjóðerni í þeim hópi. „Margir starfsmennirnir vinna þarna í marga mánuði án þess að sjá fjölskylduna sína. Ég man eftir konu frá Filippseyjum sem sagðist ekki vera búin að sjá tveggja ára dóttur sína í fimm mánuði. Móðir hennar hugsaði um barnið á meðan. Þetta var algengt á meðal áhafnarinnar og fékk mann til að hugsa um aðstæður þessa fólks heima,“ segir hún.

„Við sem erum í „expedition-teyminu“ svokallaða erum flest Íslendingar auk Þjóðverja og Austurríkismanna sem hafa búið á Íslandi og þekkja landið mjög vel,“ tekur Arndís Halla við um starfsmannamálin um borð.

Ásta Birna stýrir dýrum knerri úti fyrir Uummannaq, einum viðkomustaða …
Ásta Birna stýrir dýrum knerri úti fyrir Uummannaq, einum viðkomustaða þeirra Arndísar Höllu í siglingunum. Ljósmynd/Aðsend

„Þegar ég kom heim frá Þýskalandi ætlaði ég eiginlega bara að hætta að syngja og fara að gera eitthvað annað. En að vera að vinna á Ocean Diamond er mjög skemmtilegur ævintýraheimur, ég er leiðsögumaður, ég er að syngja og ég er að sigla með farþega á Zodiac-bátunum. Þetta er algjört púl og rosalega mikil vinna en alveg stórskemmtilegt.

Launin eru ekkert sérstök í þessum bransa en við búum frítt um borð og fáum góðan mat og miðað við mínar þarfir er þetta ágætt og maður fær líka sína hvíld inn á milli. Ég er ekki tvítug lengur og það er mjög gott að geta slakað á fram eftir hausti þegar törninni lýkur,“ segir Arndís Halla, en maður hennar er Tómas Ragnarsson rafvirki og börn Arndísar tvö, bæði uppkomin, en Tómas á einnig tvö börn, þar af 15 ára dóttur sem býr hjá þeim Arndísi.

„Þannig að við þurfum enga barnapíu nema kannski helst fyrir hundinn, en Tommi tekur hann nú yfirleitt að sér,“ segir Arndís Halla kersknislega.

Datt í sjóinn

Ásta Birna lætur vel af kynnum þeirra vinkvenna. „Arndís Halla og ég náðum strax vel saman, það var eiginlega alveg magnað hvað við gátum setið og talað um allt á milli himins og jarðar þegar við áttum frí. Þessi tignarlega, fallega og hressa kona hafði ofsalega góða nærveru og ekki spillti fyrir að hún gat sungið sig inn í hjörtu fólks með ótrúlegri rödd, enda þekkt óperusöngkona.

Hún var búin að vera þarna frá upphafi ferðanna, bæði í Grænlandsferðunum og einnig í ferðunum í kringum Ísland, þannig að hún var þarna öllum hnútum kunnug. Fólk beið í ofvæni eftir söngkvöldunum hennar, en einnig var hún leiðsögumaður og sigldi Zodiac eins og herforingi,“ segir Skagfirðingurinn.

Arndís Halla við jökulinn þar sem fegurðin ríkir ein.
Arndís Halla við jökulinn þar sem fegurðin ríkir ein. Ljósmynd/Aðsend

Sjómennskan hefur þó ekki alltaf verið eintómur dans á rósum og Ásta Birna rifjar upp vandræðalegt augnablik þegar hún hreinlega datt í sjóinn þar sem Ocean Diamond var statt við Uummannaq, nyrsta bæinn á siglingaáætluninni við vesturströnd Grænlands.

„Ég var að leggja bátnum mínum og þar sem það var fullt við bryggjuna setti ég mótorinn upp og dró bátinn upp í grjótið og batt hann þar. Ég tók ekki eftir því að ég hafði óvart ýtt á takkann sem stjórnar snerpunni á mótornum þegar ég fór með fullan bát af fólki yfir í skipið því þá var báturinn þungur og mótorinn mátti hafa sig allan við,“ rifjar hún upp.

„Þegar ég fer til baka með tóman bátinn staldra ég aðeins við til að fylgjast með strákum í áhöfninni sem voru að reyna að ýta ísjaka frá skipinu á öðrum Zodiac. Sennilega hef ég ætlað að vera einhver töffari og gaf allt í botn þegar ég fór frá þeim, það vildi ekki betur til en að báturinn var sneggri en ég hélt og ég fór gott heljarstökk aftur á bak þar sem ég stóð þarna í bátnum óviðbúin kraftinum.

Ægifögur náttúran í Uummannaq, langt norðan heimskautsbaugs. Þarna hittu Arndís …
Ægifögur náttúran í Uummannaq, langt norðan heimskautsbaugs. Þarna hittu Arndís Halla og Birgir samstarfsmaður hennar mann sem ásamt bróður sínum fann „múmíurnar frá Qilakitsoq“ í helli árið 1972. Ljósmynd/Aðsend

Strákarnir kölluðu í talstöðina „man over board, man over board!“ svo þeir á skipinu misstu nú alls ekki af þessu og voru ansi margir sem sáu þá koma mér til hjálpar við að komast upp í bátinn minn sem hafði ekki farið langt frá mér þar sem ég hafði nú sem betur fer ekki gleymt að setja snúruna á mig fyrir ádreparann. Sjórinn var kaldur, en ég var í galla og með húfu og vettlinga til skiptanna, svo þetta var nú ekkert alvarlegt, nema helst stoltið sem var pínu sært,“ segir Ásta Birna af hrakförum sínum þennan daginn.

Det var brændevin i flasken

Eins urðu ýmsar spaugilegar uppákomur vegna þess hve líkar Ásta Birna og Arndís Halla voru í útliti til að byrja með. „Þegar við kynntumst vorum við áþekkar í útliti,“ segir Arndís Halla, „báðar með sítt dökkt hár og auk þess báðar svona opnar og hlæjandi týpur. Fólk var stöðugt að rugla okkur saman og oft mjög fyndnar aðstæður sem komu upp.“

Má þar meðal annars nefna sögu af því þegar danskir ferðamenn töldu sig ranglega vera í félagsskap óperusöngkonunnar. „Ég hafði ferjað danskan hóp í land sem var ansi hress og skemmtilegur,“ segir Ásta Birna af þeirri uppákomu. „Þar var kona sem kom með þá hugmynd að ég ætti að syngja sjóarasöngva þegar ég væri að ferja fólkið yfir. Ég hló bara og eyddi talinu, enda þekkt fyrir allt annað en fagran söng!

Söngvarinn og Skagfirðingurinn, nægilega ólíkar til að þekkjast í sundur …
Söngvarinn og Skagfirðingurinn, nægilega ólíkar til að þekkjast í sundur er þarna var komið sögu. Ljósmynd/Aðsend

Það vill svo þannig til að ég fæ beiðni í talstöðinni um að fara með danska hópinn og sýna þeim ísjaka. Ég tók þau um borð og saman héldum við að stórum tignarlegum ísjaka og þegar Danirnir horfa með lotningu á hann segir söngþyrsta konan við mig á ensku: „Now it would be nice if you would sing for us.“ Ég ætlaði að eyða talinu aftur, en fyrst ég var nú búin að skemmta fólkinu með því að detta í sjóinn, af hverju ekki að taka þetta alla leið og syngja líka! Þetta var nú hress hópur og ég valdi því eina lagið sem ég kunni eitthvað í á dönsku, Det var brændevin i flasken. Ég skil svipinn á þeim núna, en ég var ekki að kveikja á neinu þarna þar sem ég reyndi að fá þau með mér í sönginn rosa hress og eftir smá hik tóku þau nú undir.

Að lokum hafi viðstaddir þó komist að því að konan við stjórnvölinn var alls ekki óperusöngkona með áratugareynslu.

Farþegar ferjaðir í land í skoðunarferð um Uummannaq.
Farþegar ferjaðir í land í skoðunarferð um Uummannaq. Ljósmynd/Aðsend

„Þegar þessum ósköpum var lokið segir sú söngþyrsta pínu hikandi: „So…when do you have the concert on board?“ Úff, þá áttaði ég mig fyrst á því að hún hafði ruglað mér saman við óperusöngkonuna um borð, Arndísi Höllu! Það var nú ekki leiðum að líkjast en til að bjarga heiðri söngkonunnar frægu þá leiðrétti ég nú þennan misskilning og var mikið grín gert að þessu. Ég heyrði reyndar einhvern segja að óperusöngkonan hefði dottið í sjóinn og ég verð að viðurkenna að ég leiðrétti það ekki neitt,“ segir Ásta Birna og er greinilega skemmt.

Þýski vonbiðillinn

Söngkonan kann aðra sögu af þessu víxli farþeganna á tveimur dökkhærðum valkyrjum af landi elds og ísa.

„Já, það var nú þegar ég eignaðist aðdáanda á skipinu,“ segir Arndís Halla og hlær við, „það var þýskur gaur um áttrætt sem var svona agalega skotinn í mér, nema hvað að hann þekkti okkur Ástu ekki í sundur frekar en margir aðrir og vissi aldrei hvor var hvor svo hann var alltaf að svífa á okkur til skiptis og hélt að við værum sama manneskjan.

Svo einhvern tímann var hann búinn að taka mjög flottar myndir af mér og bauð mér inn í club lounge-salinn til að sýna mér myndirnar og ég tók þá Ástu bara með af því að ég nennti ekki að sitja ein með karlinum. Og þegar við mætum þarna báðar varð hann alveg eins og kleina,“ segir Halla og skellihlær.

„Hvar er hafið? Allt er ísköld breiða,“ orti séra Matthías …
„Hvar er hafið? Allt er ísköld breiða,“ orti séra Matthías Jochumsson í Hafísnum. Arndís Halla horfir yfir Norðra kaldan veldisstól. Ljósmynd/Aðsend

„Svo kom rúsínan í pylsuendanum sem var þegar þessi túr var búinn. Þá kom hann til mín og spurði hvort hann mætti ekki fá heimilisfangið mitt af því að hann hefði tekið svo flottar myndir af mér og hann langaði til að prenta þær út og senda mér. Og ég hugsa með mér að það hljóti nú að vera í lagi og gef honum upp heimilisfangið. Ég sá svo hvers kyns var þegar myndirnar komu í póstinum. Þetta gekk alla leið og ég fékk fínu myndirnar af Ástu sendar,“ segir Halla og hlær svo undir tekur. „Við erum enn að hlæja að þessu.“

Múmíurnar frá Qilakitsoq

Ævintýralegar uppákomur í Grænlandssiglingunum ná þó langt út fyrir allan tvífaramisskilninginn enda skarta Arndís og Ásta nú hvor sínum háralitnum og ekki eins auðvelt að ruglast á þeim. Upp úr þurru rakst Arndís á mann sem fann árið 1972, ásamt bróður sínum, best varðveittu líkamsleifar sem fundist hafa á Grænlandi, þá 500 ára gamlar.

Múmíurnar frá Qilakitsoq eru varðveittar á Þjóðminjasafninu í Nuuk og …
Múmíurnar frá Qilakitsoq eru varðveittar á Þjóðminjasafninu í Nuuk og eru best varðveittu líkamsleifar sem fundist hafa á Grænlandi. Er þar komið fólk sem hafðist við í Inúítaþorpi á 15. öld sem nú er löngu yfirgefið. Ljósmynd/Wikipedia.org/Choffa

„Við vorum í Uummannaq, ég og Birgir R. Jóhannsson, vinur minn og samstarfsmaður, og eigum smá frítíma svo við förum að rölta þarna aðeins um bæinn,“ segir hún frá. „Þá kemur til okkar maður, Inúíti sem býr þarna, og segir okkur að hann sé að fara að gefa sleðahundunum sínum að éta og spyr hvort við viljum ekki bara koma með og fá að fylgjast með því og ég hélt það nú svo við fórum með honum.

Hann heitir Hans Groenwold þessi maður og við fórum með honum og heilsuðum upp á hundana sem var alveg yndislegt, sumir þeirra voru bara hvolpar. Svo fer hann að segja okkur sögu af því þegar hann var með bróður sínum í veiðiferð norður af Uummannaq árið 1972 og þeir lenda í aftakaveðri. Þeir leita þá skjóls í hellisskúta sem þeir finna undir klettadrangi og þar inni finna þeir múmíur, fjöldann allan.

Átta af þessum múmíum eru til sýnis á Þjóðminjasafninu í Nuuk,“ segir Arndís, en samkvæmt aldursgreiningu eru múmíurnar af fólki sem lést árið 1475 í Inúítaþorpinu Qilakitsoq sem var á Nuussuaq-skaganum, ekki langt frá Uummannaq, og löngu farið í eyði þegar bræðurnir leituðu þar skjóls fyrir veðurofsanum árið 1972. Múmíurnar átta á safninu eru af sex konum og tveimur sveinbörnum og eru sem fyrr segir elstu varðveittu líkamsleifar sem fundist hafa á Grænlandi.

Ofurlítil dugga utan við djúpan jökulfjörðinn sem bærinn Ilulissat stendur …
Ofurlítil dugga utan við djúpan jökulfjörðinn sem bærinn Ilulissat stendur við. Hrikaleg ísfjöll sigla um hafflötinn. Ljósmynd/Aðsend

Allt fellt niður í fyrra

Ásta Birna segir það stundum hafa verið undarlegt að koma heim í Skagafjörðinn á ný eftir að hafa búið vikum saman við allt annan raunveruleika þótt ekki hafi verið farið svo ýkjalangt frá fósturjörðinni.

„Það var yfirleitt ekkert net- eða símasamband svo öll samskipti fóru fram í gegnum talstöðvar, ef við vorum ekki hlið við hlið það er að segja. Það var stundum skrítið að koma heim eftir svona ferðir og vera ekki með talstöð, þurfa að elda sjálfur og búa um rúmið sitt. Þarna var maður bara á mjög fínu hóteli, þar sem var herbergisþjónusta, góður matur og þjónað til borðs. Svo það væsti ekki um mann,“ segir Ásta.

Heimsfaraldurinn setti eðlilega stórt strik í reikninginn hjá Iceland ProCruises árið 2020 eins og líklega hjá öllum öðrum skemmtiferðaskipaútgerðum heimsins og ferðaþjónustufyrirtækjum.

Ásta Birna á siglingu utan við Uummannaq.
Ásta Birna á siglingu utan við Uummannaq. Ljósmynd/Aðsend

„Í fyrra féll bara allt niður og sem betur fer var bara tekin ákvörðun um það vel tímanlega, það var í mars eða apríl held ég sem okkur var bara sagt að skipið kæmi ekkert fyrr en bara 2021,“ segir Arndís Halla og telur ferðamannabransann enn mega bíða um stund.

„Ég held að það verði ekki neitt í gangi fyrr en bara líður að sumri og svo fari þetta svona rólega í gang bara í sumar. Ég held að 2022 sé raunhæfur möguleiki þegar maður hugsar til þess hvenær ferðamennskan fer í gang aftur af alvöru.“

Hún hafi því að mestu leyti verið í fríi og notið hvíldarinnar þótt rólegheitin séu kannski búin að vera fullmikil. „Ég er búin að vera eitthvað að syngja en aðallega bara í minni verkefnum, ég er búin að vera mest bara í hestunum okkar, það er eiginlega það sem heldur manni á lífi í þessu öllu og frá geðveikrahælinu.“

Spegilsléttur hafflötur við aftanskæru. Myndin er tekin við Eqi-jökul, um …
Spegilsléttur hafflötur við aftanskæru. Myndin er tekin við Eqi-jökul, um 80 kílómetra norður af Ilulissat. Ljósmynd/Aðsend

Færð ekki byssu fyrr en þú ert tólf ára

Lok spjallsins snúast um grænlenskt samfélag, mikil félagsleg vandamál þar og stórfellt áfengisvandamál, en einnig mat sem Arndís Halla kann að miklu leyti vel að meta. „Þeir borða mikið hreindýrakjöt og sauðnautakjöt sem hvort tveggja er mjög gott, en svo er selur og hvalur líka ofarlega á matseðlinum sem á kannski ekki alveg eins mikið upp á pallborðið hjá mér,“ segir söngkonan og nefnir að lokum annað sem hafi komið býsna spánskt fyrir sjónir.

Á basalteyju í Qeqertarsuup tunua sem heitir því frumlega nafni …
Á basalteyju í Qeqertarsuup tunua sem heitir því frumlega nafni Disko-flói á sumum öðrum tungumálum. Ljósmynd/Aðsend

„Byssur til dæmis, þær eru til sölu bara úti í næstu matvöruverslun, við hliðina á kexinu bara. Ég var eitthvað spyrja út í byssuleyfi og svona og fékk þá að heyra að þeir væru sko með sínar reglur. Þú mátt ekki ganga með byssu nema þú sért orðinn tólf ára,“ segir Arndís Halla Ásgeirsdóttir hlæjandi að skilnaði og slær botninn í fróðlega frásögu þeirra Ástu Birnu Jónsdóttur, tveggja íslenskra Grænlandsfara sem kunna af ýmsu að segja.

Hér að neðan má sjá myndskeið úr Grænlandssiglingunum sem Arndís Halla gerði fyrir vini og vandamenn, klippti saman og söng sjálf undir, „nema lagið sem stelpurnar syngja auðvitað, það er gamalt grænlenskt lag sem ég kann því miður engin deili á,“ segir hún. Sjón er sögu ríkari, og heyrn ekki síður reyndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert