Snúið að finna heimili með hundinn

Það getur verið hægara sagt en gert að finna sér heimili ef einn í fjölskyldunni er á fjórum fótum. Það er reynsla Einars Alexanders Eymundssonar hundaeiganda, sem fékk samþykkt tilboð í draumaíbúðina á dögunum en þá átti eftir að sannfæra aðra um að hundurinn Flóki væri góð viðbót í stigaganginn. Samkvæmt lagasetningu frá árinu 2011 þurfa tveir þriðju íbúa að veita samþykki fyrir hunda- og kattahaldi þegar inngangur eða stigagangur er sameiginlegur. 

Í myndskeiðinu er tekið hús á þeim Einari og Flóka og farið yfir ferlið sem endaði með því að íbúar og íbúðareigendur í stigaganginum sem telur 18 íbúðir kusu að leyfa ekki hundahald í blokkinni. 

Framfaraskref á undanförnum áratug

Lagasetningin frá árinu 2012 þótti mikið framfaraskref fyrir hunda- og kattaeigendur „af því að eins og flestallir vita þá er alltaf einn leiðinlegur sem segir bara nei við öllu,“ segir Tinna Andrésdóttir, lögfræðingur hjá Húseigendafélaginu, um stöðu þessara mála. Síðan þá hefur verulega dregið úr ágreiningsmálum sem berist félaginu á þessu sviði. Það sem helst komi upp á borð sé mat fólks á því hvað teljist sem sameiginlegur inngangur. Eigendur ferfætlinga hafa gjarnan kosið eignir á jarðhæð þar sem sé aðgengi út á pall eða út í garð. 

Í desember í fyrra komst kærunefnd húsamála hins vegar að því að ekki væri hægt að fallast á að slíkir inngangar teldust aðalinngangar. Það þýðir að sé aðalinngangur íbúðar í sameign þarf leyfi hjá 2/3 íbúa í sameigninni fyrir dýrahaldi. Úrskurð nefndarinnar má skoða hér og Tinna segir niðurstöðuna geta haft talsverða þýðingu fyrir fjölda fólks.   

Hér er svo að finna listilega skrifaða grein um dýrahald í fjölbýli á vef Húseigendafélagsins. 

Þétting byggðar hefur áhrif

Álitamál tengd dýrahaldi í fjölbýli koma reglulega inn á borð Félags ábyrgra hundaeigenda. Guðfinna Kona Kristinsdóttir situr í stjórn félagsins og hún segir að almennt sé menning tengd hundahaldi skammt á veg komin hérlendis. Ekki fyrr en árið 2006 hafi bann við hundahaldi verið afnumið í Reykjavík og einungis séu fáein ár síðan hundar hafi verið bannaðir á Laugaveginum og í Strætó.

Á sama tíma og hundaeign aukist jafnt og þétt í samfélaginu sé það yfirlýst stefna á höfuðborgarsvæðinu að þétta byggð. Af því leiðir að hlutfall fólks sem býr í fjölbýli fari einnig hækkandi. 

Uppbygging í Vogabyggð þar sem búast má við mörgum fjölbýlishúsum.
Uppbygging í Vogabyggð þar sem búast má við mörgum fjölbýlishúsum. Eggert Jóhannesson

Við höfum fengið margar reynslusögur frá hundaeigendum sem hafa þurft að selja íbúðina sína vegna breytinga á reglum húsfélaga þótt ekkert vandamál hafi verið vegna hundsins. Þá hafi eigendur íbúða breyst og húsfélagið til dæmis ákveðið að banna allt hundahald til að fyrirbyggja vandamál í framtíðinni og þar með er verið að banna þá hunda sem fyrir eru í leiðinni,“ segir hún en einnig er rætt við Guðfinnu í meðfylgjandi myndskeiði. 

Afstaða félagsins er að leyfa beri gæludýrahald almennt í fjölbýli og ekki krefjast samþykkis annarra eigenda íbúða, en tekið yrði á vandamálum ef þau koma upp eins og hverju öðru vandamáli sem getur komið upp í fjölbýli. Þetta myndi færa regluverk í kringum dýrahald nær því sem þekkist í nágrannalöndunum að sögn Guðfinnu.

Hundalíf hefur orðið sífellt stærri hluti af íslensku samfélagi á …
Hundalíf hefur orðið sífellt stærri hluti af íslensku samfélagi á skömmum tíma. AFP

Viðhorf fólks vonbrigði

Einar Alexander og Flóki eru því aftur komnir í húsnæðisleit en hann hefur ekki miklar áhyggjur af því sem slíku. „Jú jú, við finnum okkur einhvers staðar íbúð. Ég var bara vonsvikinn yfir því hvernig viðhorf hjá sumum var gagnvart hundum. Fólk gerir sér ekki alveg grein fyrir því hvað þetta eru ljúf dýr oft,“ segir hann. Engu hafi breytt þó hann hafi tjáð fólki að hann hafi farið á námskeið og í einkatíma með Flóka til að undirbúa þá sem best fyrir þátttöku sína í samfélaginu.  

„Þegar ég storkaði þessu viðmiði, að dýr eigi bara ekki heima í fjölbýli, fékk ég ýmsar sögur eins og frá einhverjum sem var næstum því bitinn einu sinni. Þá fór það samtal ekkert lengra af því að ég veit ekki hvað ég á að segja við því,“ segir Einar Alexander og bætir því við að þetta virðist vera viðmiðið hjá of mörgum, að hundar séu ótamin dýr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka