Vel hugsanlegt að slakað verði á takmörkunum

Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hvetur fólk til að halda uppi sóttvörnum …
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hvetur fólk til að halda uppi sóttvörnum eftir fremsta megni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segir lágar smittölur síðustu daga vera tilefni til bjartsýni.

„En á sama tíma vitum við alveg að það þarf mjög lítið út af að bregða til að þetta fari af stað aftur, svo við skulum hafa varann á,“ segir hann við mbl.is.

Einungis eitt kórónuveirusmit hefur greinst innanlands síðan á fimmtudag, og hafa tilslakanir á samkomutakmörkunum verið nokkuð í umræðunni í ljósi þess.

„Það er vel hugsanlegt að það verði slakað aðeins á áður en gildandi reglugerð fellur úr gildi, þann 17. febrúar,“ segir Rögnvaldur.

Minnir á fyrrasumar

Hann varar þó fólk við kæruleysi í persónubundnum sóttvörnum.

„Við finnum það núna að fólk er strax farið að haga sér af sama kæruleysi og í lok fyrrasumars. Fólk er að greinilega að slaka á sóttvörnum, enda mikið að gera hjá lögreglunni síðustu helgar vegna þess,“ segir hann.

„Nú er mikilvægt að halda áfram þeim góðu siðum sem við erum búin að temja okkur. Þótt það gangi vel er engin ástæða til að slaka neitt mjög mikið á, við höfum séð það nokkrum sinnum í faraldrinum að það þarf ekki meira en eitt eða tvö smit í einhverjum hópi til að þetta fljúgi aftur af stað,“ segir Rögnvaldur.

„Ef fólk fylgir heldur áfram að fylgja þeim leiðbeiningum og reglum sem eru í gildi mun okkur farnast vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert