Óvissustig almannavarna er enn í gildi vegna vatnshæðar við brúna yfir Jökulsá á Fjöllum. Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands segir að fyrirkomulag um umferðarstýringu verði næst endurskoðað á miðvikudag.
Samkvæmt sérfræðingi Veðurstofu Íslands, sem mbl.is ræddi við fyrir hádegi, hefur vatnshæðin haldist nánast óbreytt frá í gær þegar hún hafði lækkað lítillega eftir að hafa náð hámarki á laugardagsmorgun.
Enn er mikill krapi og ís í ánni og áfram er spáð miklum kulda og má því áfram búast við svipuðum aðstæðum í ánni næstu daga. Á meðan ástandið varir er enn yfirvofandi hætta á að krapastíflur bresti ofar í ánni sem geta valdið hættu eða tjóni á og við brúna.
Opið er fyrir umferð yfir brúna á milli klukkan 9 og 18, eða á meðan dagsbirta er og hægt að fylgjast með vatnsborðinu. Vakt er á staðnum til þess að fylgjast með ef breytingar verða.