Árið 2012 var nýtingarhlutfall á Laugalandi 98,4%. Hlutfallið féll niður í 77,1% árið 2018, 50% árið 2019 og 29,6% árið 2020.
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur hópur fyrrverandi skjólstæðinga, aðstandenda og fagaðila á Laugalandi í Eyjafirði sett á fót síðu sem heldur utan um áskorun þeirra til félags- og barnamálaráðherra og forstjóra Barnaverndarstofu um að loka ekki úrræðinu.
Síðan ber yfirskriftina „Laugaland bjargaði mér“ og má þar finna fjölda frásagna þjónustuþega úrræðisins sem og frá starfsfólki þess.
Starfsmönnum meðferðaheimilisins var tilkynnt um lokun þess 20. janúar. Til stendur að loka því 30. júní nk.