Einhverjir úr aldurshópnum 90 ára og eldri, sem boðaðir hafa verið í bólusetningu að Suðurlandsbraut 34 á morgun, liggja inni á Landspítala. Í tilkynningu frá spítalanum segir að þeir sem treysti sér til að fara á Suðurlandsbraut í bólusetningu megi gera það en aðrir geti farið seinna. Þeirra boð standi áfram þótt það sé ekki nýtt þennan tiltekna dag.
Mælst er til þess að aðstandandi sem hafi verið í samskiptum við viðkomandi sjái um að fylgja honum til og frá bólusetningarstað, að báðir noti grímu og komi hvergi við á leiðinni til og frá spítalanum.
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins verður svo með opið hús fyrir þá sem ekki komast á tilsettum tíma og þá sem ekki eru með farsíma og hafa af þeim sökum ekki fengið smáskilaboð með strikamerki. Fólk þarf þá að hafa með sér persónuskilríki.