Karlmaðurinn sem játaði í dag að hafa orðið íslenskri konu að bana á Austur-Jótlandi í Danmörku verður ákærður fyrir manndráp og fyrir ósæmilega meðferð á líki. Þetta segir Michael Kjeldgaard, yfirlögregluþjónn á Austur-Jótlandi, í samtali við mbl.is.
Maðurinn var leiddur fyrir dómara í Árósum á níunda tímanum í morgun. Réttarhöldunum er ekki lokið en lögreglan fór fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir honum.
Hvarf konunnar, Freyju Egilsdóttur Mogensen, var tilkynnt á þriðjudag en síðast sást til hennar á fimmtudagskvöld um klukkan 23.30 þegar hún hafði lokið vinnu sinni á hjúkrunarheimili í Odder.
Á laugardag fékk vinnuveitandi tilkynningu um veikindi Freyju í formi sms-skilaboða úr síma hennar. Kjeldgaard segir í skoðun hvort hún hafi sent skilaboðin sjálf en vill ekki segja hvort það sé talið ólíklegt.
Þá er ekki hægt að gefa upp á þessari stundu hvort maðurinn hafi áður komist í kast við lögin eða hvort hann hafi áður beitt Freyju ofbeldi.
Maðurinn er sakaður um að hafa þrengt að öndunarvegi Freyju með þeim afleiðingum að hún lést.
Samkvæmt upplýsingum frá borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins hefur málið ekki komið inn á borð þess.