Fara fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald

Dómshúsið í Árósum. Þar verður maðurinn leiddur fyrir dómara.
Dómshúsið í Árósum. Þar verður maðurinn leiddur fyrir dómara. Ljósmynd/Wikipedia.org

Lögreglan á Austur-Jótlandi ætlar að fara fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir manni sem hún handtók í morgun vegna andláts 43 ára gamallar íslenskrar konu. Maðurinn var leiddur fyrir dómara í  dómshúsinu í Árósum klukkan hálfníu í morgun að íslenskum tíma. Hann er fyrrverandi sambýlismaður konunnar, Freyju Egilsdóttur Mogensen.

„Við erum á byrjunarstigi rannsóknar og ég get ekki sagt frá því sem stendur hvers vegna við handtókum manninn. Við höfum fengið fram vísbendingar í rannsókn okkar sem benda til þess að hann gæti verið hinn grunaði í þessu máli. Þess vegna ætlum við að leiða hann fyrir dómara klukkan 9:30 [8:30 að íslenskum tíma] í dómshúsinu í Árósum,“ segir Michael Kj­eld­ga­ard, yf­ir­lög­regluþjónn á Aust­ur-Jótlandi, í samtali við mbl.is um málið. 

„Við munum biðja um að hann verði settur í varðhald á meðan frekari rannsókn fer fram,“ segir Kjelgaard. Venjulega er farið fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald í málum sem þessum. Eftir þann tíma mun lögreglan endurmeta hvort hún telji þörf á lengra gæsluvarðhaldi. 

Upplýsingar um stöðu mannsins koma fyrst fram í dómsal

Hefur maðurinn játað að hafa myrt Freyju?

„Ég hef ekkert að segja um stöðu hans sem stendur. Þessar upplýsingar munu fyrst koma fram í dómsal,“ segir Kjelgaard.

Nánustu aðstandendur Freyju hafa verið látnir vita af andláti hennar. Kjelgaard segir þó ekki mögulegt að greina frá því hvort hún láti eftir sig börn eða aðra nána aðstandendur. Mögulega mun lögreglan greina frá því síðar. 

Þá segir Kjelgaard að enn hafi ekki verið borin full kennsl á Freyja en lögreglan er þó viss í sinni sök um að konan sem fundist hafi látin sé Freyja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert