Gríðarlegt álag jókst enn meira

Álag á íslenska háskólanema jókst til muna í fyrstu bylgju Covid-19-faraldursins síðasta vor. Álagið var þegar mikið enda vinna nemendur hér á landi meira með námi og eiga að meðaltali fleiri börn en nemar í öðrum Evrópulöndum.

Yvonne Höller, prófessor í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri.
Yvonne Höller, prófessor í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri. Ljósmynd/Aðsend

„Álagið er gríðarlega mikið og það minnkaði ekki síðasta vor þegar börn á leik- og grunnskólaaldri þurftu að dvelja einhverja daga heima vegna samkomutakmarkana,“ segir Yvonne Höller, prófessor í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri, í samtali við mbl.is. Hún flutti erindi á Jafnréttisdögum háskólanna í hádeginu en yfirskriftin var „áhrif Covid-19 á háskólanám“.

Höller segir að um sé að ræða alþjóðlega rannsókn á stöðu og líðan háskólanema í fyrstu bylgju faraldursins en rannsóknin fór fram í mörgum Evrópulöndum, Japan, Kína og Bandaríkjunum. 

„Við höfum áhuga á að sjá hvað hefur áhrif á góðan námsárangur og góða líðan nemenda við aðstæður sem myndast hafa í heimsfaraldrinum,“ segir Höller.

„Íslenskir nemendur eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu“

Hún segir meðal annars rannsakað hvort streita og kvíði hafi aukst meðal nemenda, eins og annarra, við þær aðstæður sem sköpuðust síðasta vor. 

„Íslenskir nemendur eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu,“ segir Höller. Hún segist hafa fengið svör frá 360 háskólanemum í apríl og maí á síðasta ári vegna rannsóknarinnar en ekki var rannsakað sérstaklega hvort nemendur hefðu flosnað upp úr námi.

Höller starfar við Háskólann á Akureyri.
Höller starfar við Háskólann á Akureyri. Ljósmynd/Aðsend

Rannsakendur komust meðal annars að því að eldri nemendum leið verr en þeim yngri og að þeim sem voru í vinnu með námi leið betur, þrátt fyrir aukið álag.

Nemum í hlutastarfi leið betur

„Það er mjög áhugavert að þó að vinna með námi sé oft og tíðum auka byrði leið nemendum sem voru með vinnu mun betur. Það er áhugavert vegna þess að nemendur eyða að meðaltali um 30 tímum á viku í vinnu og 30 tímum á viku í nám og svo þarf að sjá um börnin á heimilinu,“ segir Höller og heldur áfram:

„Ef þú ert með vinnu þá finnurðu fyrir öryggi vegna þess að þú getur borgað reikningana.“

Höller segir að mjög áhugasamir, sjálfstæðir nemendur geti fengið sig til að læra þrátt fyrir erfiðar utanaðkomandi aðstæður. Aðstæður gátu þá verið á þá leið að fólk var í námi, hlutastarfi og sá um börn og foreldra. Með það marga bolta á lofti voru meiri líkur á því að námið sæti á hakanum í heimsfaraldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka