Grjót lenti á höfði Johns Snorra er hann var á leið upp í aðrar búðir á fjallinu K2 fyrr í dag. Sem betur fer var hann með hjálm á höfðinu sem bjargaði honum.
Annar fjallgöngumaður úr hópnum „Seven Summits“ var ekki eins heppinn því grjót lenti á öxl hans. Hann er að meta framhaldið hjá sér.
„Þetta er ein af hættunum á fjallinu þegar grjót fellur niður á miklum hraða. Sumir af fjallgöngumönnunum frá „Seven Summits“ hafa ákveðið að hætta við að reyna að komast upp tindinn af þessum sökum,“ segir á facebooksíðu Johns Snorra.
John Snorri og félagar hans eru komnir í aðrar búðir. „Þeim leið vel og þeir eru tilbúnir og jákvæðir varðandi gönguna á toppinn,“ segir á síðunni.
Á morgun klukkan 8 að staðartíma ætla þeir að klifra upp „Svarta pýramídann“ á leið sinni að þriðju búðum. Þar ætla þeir að hvílast það sem eftir lifir dagsins.
John Snorri tók einnig eftir smávægilegu kali á einum fingri en sagðist ekki hafa áhyggjur af því, enda með lyf meðferðis. Ali og sonur hans Sajid, sem eru með honum í för, hafa það gott.
Mikið hefur verið um skriður á „Breiðtindi“ í dag og hafa þeir félagar bæði heyrt í þeim og séð þær falla.