Grunaður um að hafa myrt konuna

mbl.is/Sverrir

Kona sem lýst var eftir á Austur-Jótlandi fannst látin í gærkvöldi og hefur lögreglan handtekið 51 árs gamlan mann grunaðan um að hafa myrt hana. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.

Lýst var eftir íslenskri konu í dönskum fjölmiðlum í gær en hún var 43 ára gömul og búsett í Malling. Í tilkynningu frá lögreglunni á Austur-Jótlandi kemur fram að hennar hafi verið leitað í allan gærdag og fram á kvöld en í nótt hafi líkamsleifar fundist á heimili hennar í Veilgårdsparken í Malling.

Í tilkynningunni er haft eftir Michael Kjeldgaard, yfirlögregluþjóni á Austur-Jótlandi, að réttarmeinarannsókn fari fram í dag. 

Lögreglan handtók fyrrverandi sambýlismann konunnar í gær og verður hann leiddur fyrir dómara nú klukkan 8:30 að íslenskum tíma, klukkan 9:30 að dönskum tíma í héraðsdómi í Árósum, grunaður um að hafa verið valdur að dauða hennar.

Michael Kjeldgaard segir í tilkynningu að það hafi verið fyrrverandi sambýlismaður konunnar sem tilkynnti hvarf hennar í gærmorgun. Grunsemdir hefðu strax vaknað við lýsingar mannsins og því beindist leitin fljótt að heimili konunnar. 

Tilkynning lögreglunnar í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert