Hæstiréttur hafnar að taka fyrir mál Ágústu

Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi.
Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi. mbl.is/Sverrir

Hæstiréttur hefur hafnað að taka fyrir mál fyrrum skólameistara Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Landsréttur hafði áður sýknað ríkið af kröfu skólameistarans um að skipunartími hennar myndi framlengjast til fimm ára til loka ársins 2025.

Ágústa Elín Ingþórsdóttir var árið 2014 skipuð til að gegna starfinu til fimm ára. Í lög­um um rétt­indi og skyld­ur starfs­manna rík­is­ins er mælt fyr­ir um að emb­ætt­is­menn skuli skipaðir tíma­bundið til fimm ára í senn nema annað sé tekið fram í lög­um og skuli hon­um til­kynnt eigi síðar en sex mánuðum áður en skip­un­ar­tími hans renn­ur út hvort embættið verði aug­lýst laust til um­sókn­ar. Sé það ekki gert fram­leng­ist skip­un­ar­tími hans í embætti sjálf­krafa um fimm ár.

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra tilkynnti Ágústu um ákvörðun sína að auglýsa stöðuna 30. júní 2019, eða degi fyrir lokafrest til að gera það. Ágústa hafði hins vegar borið fyrir sig að henni hafi ekki verið tilkynnt um ákvörðunina fyrr en að kvöldi 1. júlí 2019, þegar henni barst tölvu­póst­ur frá staðgengli ráðuneyt­is­stjóra þar sem það kom fram. Sagði Ágústa að daginn áður hefði Lilja aðeins talað um að hún hefði hug á að auglýsa embættið, en að ákvörðun hefði ekki verið tekin.

Í málskotsbeiðni Ágústu til Hæstaréttar var vísað til þess að úrslit málsins hefðu verulegt almennt gildi og að dómar Landsréttar og héraðsdóms væru bersýnilega rangir að formi og efni. Taldi hún, með hliðsjón af fyrri dómum Hæstaréttar, að ríkinu bæri að bera halla af því að hafa ekki tryggt sér sönnun með óyggjandi hætti um atvik sem umdeild eru í samskiptum við starfsmann.

Hæstiréttur telur, að að virtum gögnum málsins sé hvorki unnt að líta svo á að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi né varði sérstaka mikilvæga hagsmuni. Þá sé ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Er beiðninni því hafnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka