Íslendingur forstjóri hjá framleiðanda Sputnik V

Bjarni Bærings lagði stund á lyfjafræði hérlendis og „ólst upp“ …
Bjarni Bærings lagði stund á lyfjafræði hérlendis og „ólst upp“ hjá Actavis eins og margir í sama geira. Hér er hann fyrir utan höfuðstöðvar Hetero Drugs í borginni Hyderabad á Indlandi. Ljósmynd/Aðsend

Íslenskur lyfjafræðingur stýrir evrópskum hluta eins stærsta samheitalyfjafyrirtækis heims, Hetero Drugs. Lyfjafyrirtækið, sem er indverskt, ætlar sér að framleiða rússneska bóluefnið Sputnik V á Indlandi og er útlit fyrir að Hetero Drugs muni framleiða 100 milljónir skammta af bóluefninu þar á þessu ári en allir skammtarnir eiga að fara inn á indverskan markað.

Bjarni Bærings er forstjóri Hetero Drugs í Evrópu sem hefur höfuðstöðvar sínar í Barcelona. Hetero Drugs hefur 38 lyfjaverksmiðjur innan sinna vébanda og 25.000 starfsmenn. Fyrirtækið selur lyf til 130 landa.

Niðurstöður rannsóknar á Sputnik V sem birtar voru í læknisfræðitímaritinu Lancet í gær leiða í ljós að það veitir tæplega 92% vernd gegn Covid-19. Bjarni segir aðspurður að það séu góðar fréttir. Rússar hófu snemma að bólusetja þegna sína með bóluefninu, áður en það hafði farið í gegnum þriðja fasa rannsókna. Það og lítið gagnsæi vakti upp efasemdir um bóluefnið hjá vísindamönnum áður en niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í gær og í ljós kom að það veitir meiri vernd en t.a.m. bóluefni AstraZeneca.

Mikil pólitík í kringum bóluefnaviðskipti

Spurður hvort Hetero Drugs hafi ekkert efast um gagnsemi bóluefnisins fram að þessu segir Bjarni að mikil pólitík sé í kringum viðskipti með bóluefni. Pólitíkin snúi líka að því hvar bóluefnin séu búin til. Þá hafi Rússarnir ekki veitt mikið gagnsæi og varla afhjúpað niðurstöður úr rannsóknum til að byrja með. Það hafi skapað tortryggni.

„Tortryggnin var ekki endilega í kringum niðurstöðurnar sjálfar heldur frekar í kringum það að þeir héldu fast að sér höndum. Það er mjög þekkt í lyfjabransanum. Þegar þú ert að gera fyrstu rannsóknir heldurðu fast að þér spöðunum og vilt ekkert endilega sýna það sem þú hefur í byrjun. Rússarnir fóru hratt af stað, þeir tóku kannski aðeins meiri áhættu, biðu ekki jafn lengi eftir niðurstöðum. Þeir byggðu sínar ákvarðanatökur á því að fyrstu niðurstöður voru mjög góðar,“ segir Bjarni.

Hann bætir því við að hugsanlega hafi tortryggni í garð Sputnik V einnig verið tilkomin vegna þess að það var frá Rússlandi. Ef Evrópuþjóð hefði gripið til svipaðra aðferða og Rússland hefði það mögulega verið litið öðrum augum.

„En núna þegar frekari rannsóknir eru búnar að birtast þá kemur í ljós að virkni [Sputnik V] virðist vera mun betri en til dæmis bóluefnis AstraZeneca. Rússneska bóluefnið er að mér skilst eitt af örfáum sem er með mismunandi skammta, í skammti eitt og tvö eru mismunandi týpur af bóluefnum. Það á að gefa sterkara ónæmissvar og endast lengur. Aukaverkanir af þessu bóluefni virðast vera mjög mildar, ef ekki mildari en hjá öðrum bóluefnum. Þegar þetta er skoðað virðist þetta bóluefni koma mjög vel út,“ segir Bjarni.

Virkni Sputnik V virðist vera mun betri en til bóluefnis …
Virkni Sputnik V virðist vera mun betri en til bóluefnis AstraZeneca. Aukaverkanir Sputnik V virðast vera mjög mildar. AFP

Rússarnir anna ekki allri eftirspurninni

Hann bendir á að sá sem þróar bóluefni og framleiðir það sé sjaldnast  sami aðilinn þar sem framleiðslugetan liggi ekki endilega hjá þeim sem þróar bóluefnið. 

„Rússarnir þróa bóluefnið sitt og framleiða í Rússlandi fyrir rússneska markaðinn en þeir anna engan veginn allri eftirspurninni. Þeir hafa samið við nokkur lyfjafyrirtæki sem eru með mikla framleiðslugetu. Hetero Drugs er eitt af þessum lyfjafyrirtækjum sem Rússarnir sömdu við. Það kemur til vegna þess að við erum mjög stórt lyfjafyrirtæki með mikla framleiðslugetu og þekkingu,“ segir Bjarni.

Framleiðslan er ekki hafin en undirbúningurinn er í fullum gangi.

„Það er stór rannsókn í gangi á þessu bóluefni sem er í fasa þrjú á Indlandi. Hún fór af stað um miðjan janúar og er í gangi. Niðurstaðna hennar er beðið. Þegar þær verða komnar fer það inn á borð hjá lyfjaeftirliti Indlands. Það er vonast til þess að kannski einhvern tímann í mars verði fyrstu niðurstöður tilbúnar. Í lok mars að við getum farið að dreifa efninu,“ segir Bjarni.

Fjöldi rannsókna á Sputnik V er í gangi en fyrstu …
Fjöldi rannsókna á Sputnik V er í gangi en fyrstu niðurstöður þeirra hafa verið jákvæðar. AFP

Ólst upp hjá Actavis 

Fjöldi annarra rannsókna á Sputnik V er einnig í gangi en fyrstu niðurstöður þeirra hafa verið jákvæðar.

En hvernig kom það til að Íslendingur starfar í Barcelona fyrir stórfyrirtæki með höfuðstöðvar á Indlandi sem framleiðir rússneskt bóluefni?

„Fyrir ellefu árum síðan vildi indverska fyrirtækið hasla sér völl í Evrópu. Þeir fengu aðila til að setja fyrirtækið upp. Sá aðili var yfirmaður minn hjá grísku lyfjafyrirtæki sem ég var að vinna fyrir þá. Ég fór með honum í þetta verkefni, að byggja upp evrópska hluta fyrirtækisins árið 2010. Árið 2014 yfirgaf þessi fyrrverandi forstjóri félagið og mér var boðið að taka við,“ segir Bjarni sem hefur starfað sem forstjóri Hetero Europe frá árinu 2014.

Hann lagði stund á lyfjafræði hérlendis og „ólst upp“ hjá Actavis.

„Það var minn skóli sem ég gat svo nýtt mér til þess að halda áfram með minn feril í lyfjageiranum í Evrópu,“ segir Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert