51 árs gamall maður, sem ákærður er fyrir að hafa orðið íslenskri konu að bana á Austur-Jótlandi í Danmörku, hefur játað verknaðinn. Ekstra Bladet greinir frá þessu. Maðurinn er sakaður um að hafa þrengt að öndunarvegi konunnar með þeim afleiðingum að hún lést.
Maðurinn var leiddur fyrir dómara á níunda tímanum í dag og var fjögurra vikna gæsluvarðhalds krafist yfir honum.
Réttarhöldin eru lokuð, að beiðni saksóknara, en dómstóllinn hafnaði því að nafnleynd yrði haldin yfir hinum grunaða. Verjandi mannsins hafði óskað þess en bæði fjölmiðlar og saksóknari mótmæltu.
Hin látna var 43 ára gömul og hét Freyja Egilsdóttir Mogensen. Maðurinn var fyrrverandi sambýlismaður hennar.
Hvarf Freyju var tilkynnt á þriðjudag en síðast sást til hennar á fimmtudagskvöld um klukkan 23.30 þegar hún hafði lokið vinnu sinni á hjúkrunarheimili í Odder.
Á laugardag fékk vinnuveitandi tilkynningu um veikindi Freyju í formi sms-skilaboða úr síma hennar.
Lögreglan telur að hún hafi þegar verið látin þegar skilaboðin voru send.
Hinn ákærði er grannur maður með stutt ljóst hár og gleraugu. Við réttarhöldin var hann klæddur bláum fangabúningi og svörtum skóm.
Fréttin hefur verið uppfærð