Samstarfsfólk Freyju Egilsdóttur Mogensen í þjónustuíbúðum Stenslundcentret í Odder í Danmörku er sagt vera í áfalli vegna frétta af andláti hennar, en hún var myrt af fyrrum sambýlismanni sínum. Starfsfólk og íbúar í þjónustuíbúðunum þáðu áfallahjálp í dag en Freyja hafði unnið á Stenslundcentret til margra ára. Rúv. greinir frá.
Maðurinn sem játaði á sig verknaðinn tilkynnti um hvarf Freyju í gær en lík hennar fannst á heimili hennar í dag.
Freyja skilur eftir sig tvö ung börn, að því er fram kemur í fréttum danska miðilsins BT.
Eins og sjá má á myndum í umfjöllun BT hafa verið lögð blóm við heimili Freyju. Þá var danska fánanum flaggað í hálfa stöng á Stenslundcentret.
Anni Andersen, forstöðukona Stenslundcentret, ræddi við RÚV.
„Við erum í áfalli yfir atburðunum. Freyja var sérlega dugleg og klár og vissi hvað hún vildi,“ segir Anni.
„Sá sem heldur utan um vaktaskýrslurnar hjá okkur fékk sms frá Freyju á laugardagsmorguninn þar sem sagði að hún gæti ekki komið til vinnu vegna þess að hún væri veik. Það er ekki venjan að tilkynna veikindi með þeim hætti.“