Mótmæla ákvæðinu harðlega

Fram kemur í ályktuninni að börn eigi ekki að þurfa …
Fram kemur í ályktuninni að börn eigi ekki að þurfa að bíða eftir nauðsynlegri þjónustu. mbl.is/Hari

Málefli, hagsmunasamtök í þágu barna og unglinga með tal- og málþroskaröskun, skora á yfirvöld að endurskoða nú þegar ákvæði í rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands við sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga.

Fram kemur í ályktun samtakanna að ákvæðið hindri nýliðun í stéttinni og viðhaldi nú þegar alltof löngum biðlistum. Börn eigi ekki að þurfa að bíða eftir nauðsynlegri þjónustu.

Í rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands við sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga hefur frá árinu 2017 verið ákvæði sem kveður á um að útskrifaður talmeinafræðingar fái ekki að starfa samkvæmt fyrrgreindum rammasamningi fyrr en tveimur árum eftir að hann fær starfsleyfi frá landlækni.

„Tal- og málþroskaröskun er alvarleg röskun og hefur langvarandi afleiðingar á lífsgæði barna, líðan þeirra og samskiptahæfni. Enn fremur hefur tal- og málþroskaröskun áhrif á möguleika barna og unglinga til menntunar og starfsþátttöku seinna meir. Foreldrar barna með tal- og málþroskaröskun mótmæla harðlega ofangreindu samningsákvæði, því það hefur verulega neikvæð áhrif á börn með tal- og málþroskaröskun og erfitt er að sjá hvaða ástæður liggja á bak við þessa kröfu SÍ,“ segir í ályktuninni.

Frá Talstöðinni í Kópavogi þar sem 350 börn eru á …
Frá Talstöðinni í Kópavogi þar sem 350 börn eru á biðlista. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ósanngjarnt gagnvart börnum

Þar segir að nýlega hafi leitað til samtakanna foreldri barns með málþroskaröskun. Það hafi beðið eftir meðferð á stofu hjá sjálfstætt starfandi talmeinafræðingi í rúm tvö ár. Þá hafi komið til starfa á stofunni nýútskrifaður talmeinafræðingur í handleiðslu og tekið barnið inn af biðlista.

„Talmeinafræðingurinn og barnið ná vel saman og talþjálfunin gengur vel. Ljóst er hinsvegar að þegar handleiðslutímabili þessa talmeinafræðings lýkur eftir 6 mánuði, getur hann ekki haldið meðferð barnsins áfram fyrr en eftir að hafa sótt sér tveggja ára starfsreynslu. Meðferð barnsins lýkur og það þarf þá enn á ný að bíða eftir þjónustu nýs talmeinafræðings. Þessar aðstæður geta hægt á framförum og dregið úr líkum á árangursríkri meðferð,“ segir í ályktunni þar sem bætt er við að aðstæður sem þessar séu ósanngjarnar gagnvart börnum og að foreldrar sætti sig ekki við þennan biðlista. Nú sé mál að linni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka