Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, segir tollkvóta á erlendar landbúnaðarvörur einungis hækka verð til neytenda. Um áramótin var tekin upp aðferð við úthlutun tollkvóta á erlendar landbúnaðarvörur sem felst í því að innflutningsheimildum er úthlutað til hæstbjóðanda. Innflytjendur þurfa að greiða útboðsgjald til að fá að flytja inn vörur án tolla.
„Þarna er t.d. 65% hækkun á tollkvóta fyrir nautakjöt, 115% hækkun fyrir lífrænt alifuglakjöt og til að fá að flytja inn ákveðna tegund af skinku, parmaskinku eða serranóskinku, 29-faldast útboðsgjaldið,“ sagði Þorbjörg á þingi í dag.
Hún sagði ríkisstjórnina með þessu draga úr samkeppni, draga úr valmöguleikum almennings og hækka verð.
„Ef tilgangurinn var sá að vernda íslenskan landbúnað, hefði þá ekki mátt gera það með þeim hætti að bændur sjálfir hefðu notið góðs af? Aðgerðir stjórnvalda núna byggjast nefnilega ekki á beinum stuðningi við rekstraraðila heldur eingöngu á því að skerða stöðu keppinauta,“ sagði Þorbjörg.
Hún sagði þetta á skjön við aðrar stuðningsaðgerðir ríkisstjórnarinnar núna þar sem aðgerðir hafi einmitt verið fólgnar í beinum stuðningi.
„Íslensk matvælaframleiðsla verðskuldar vitaskuld stuðning og að búa við aðstæður og umgjörð til að blómstra, en stríð ríkisstjórnarinnar við serranóskinkuna er dálítið broslegt,“ sagði Þorbjörg og hélt áfram:
„Varnarmúr stjórnvalda á landamærunum er ógnarhár. Stafar almenningi mögulega einhver hætta af parmaskinku, sem við ekki þekkjum? Er þetta eitthvert öryggismál? Eða hvers vegna er ríkisstjórnin einhuga í því markmiði að draga úr samkeppni, hækka verð og fækka valmöguleikum almennings?“