Karlmaður á sextugsaldri sem játaði í dag að hafa banað Freyju Egilsdóttur Mogensen, íslenskri konu á fimmtugsaldri, á Austur-Jótlandi í Danmörku hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald. Hann verður aftur leiddur fyrir dómara á næstu vikum.
Michael Kjeldgaard, yfirlögregluþjónn á Austur-Jótlandi, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
Hann gat ekki tjáð sig frekar um það sem átti sér stað í dómssalnum þar sem réttarhöldin voru lokuð.
Karlmaðurinn hefur verið ákærður fyrir manndráp annars vegar og fyrir ósæmilega meðferð á líki hins vegar.
Hvarf Freyju var tilkynnt á þriðjudag en síðast sást til hennar á fimmtudagskvöld um klukkan 23.30 þegar hún hafði lokið vinnu sinni á hjúkrunarheimili í Odder.
Á laugardag fékk vinnuveitandi tilkynningu um veikindi Freyju í formi sms-skilaboða úr síma hennar. Kjeldgaard segir í skoðun hvort hún hafi sent skilaboðin sjálf en vill ekki segja hvort það sé talið ólíklegt.
Maðurinn er sakaður um að hafa þrengt að öndunarvegi Freyju með þeim afleiðingum að hún lést.