Ekkert kórónuveirusmit greindist innanlands í gær. Nú eru 33 í einangrun en 21 í sóttkví. Engin breyting hefur orðið á fjölda þeirra sem eru í skimunarsóttkví en þeir eru 1.062 talsins. Nú eru 13 á sjúkrahúsi en aðeins einn þeirra með virkt smit. Einn greindist með smit á landamærunum en hann bíður mótefnamælingar og því ekki ljóst hvort um virkt smit er að ræða.
Í gær var greint frá því að fimm biðu niðurstöðu mótefnamælingar en þrír þeirra reyndust vera með virkt smit, einn með mótefni og einn bíður enn niðurstöðunnar. Þetta þýðir að fjórir voru með virkt smit á landamærunum í fyrradag, þriðjudag.
Aðeins þrjú börn eru með Covid-19 á Íslandi, eitt barn yngri en eins árs, eitt á aldrinum 1-5 ára og eitt barn á aldrinum 6-12 ára. Ekkert smit er í aldurshópnum 13-17 ára. Sex smit eru í aldurshópnum 18-29 ára. 10 smit í aldurshópnum 30-39 ára. Fimm smit í aldurshópnum 40-49 ára, sex í hópnum 50-59 ára og þrír í aldurshópnum 60-69 ára.
Nýgengi smita innanlands er nú 3,5 miðað við 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikurnar en 6,5 á landamærunum.
Tæplega 700 fóru í skimun innanlands í gær en 188 á landamærunum.
Eitt smit er á Norðurlandi eystra og þar eru tveir í sóttkví. Þetta tengist því væntanlega landamærunum. Eitt smit er á Vesturlandi. Á höfuðborgarsvæðinu eru 25 í einangrun og 17 í sóttkví. Fjórir eru í einangrun á Suðurnesjum og jafn margir í sóttkví. Á Suðurlandi eru tvö smit en enginn í sóttkví.