Rússar búsettir hér á landi hafa boðað til mótmæla fyrir utan rússneska sendiráðið klukkan 14 á laugardaginn þar sem brotum gegn mannréttindum og málfrelsi í Rússlandi verður mótmælt.
Yfir 10.000 mótmælendur hafa verið handteknir víðs vegar um Rússland eftir að Alexei Navalní, einn helsti stjórnarandstæðingur landsins, var dæmdur til að afplána tvö ár og átta mánuði af fangelsisvist sem áður var skilorðsbundin, en hann var sakaður um að hafa rofið skilorðið.
Mótmælendur krefjast þess að Navalní og aðrir sem hafa verið handsamaðir í mótmælunum verði látnir lausir án tafar.
Bresk, frönsk, þýsk og bandarísk stjórnvöld ásamt Evrópusambandinu hafa fordæmt niðurstöðuna og krefjast þess að Navalní verði látinn strax laus. Á sama tíma saka stjórnvöld í Rússlandi vestræn ríki um afskipti af innanlandsmálum.
Auk mótmælanna við sendiráðið á Túngötu á morgun verður mótmælt á sama tíma í borgum í Tékklandi, Frakklandi, Þýskalandi, Spáni, Ítalíu Belgíu, Póllandi, Bandaríkjunum, Kanada og víðar, að því er fram kemur í tilkynningu.