Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, fagnar því að komin sé skýrari mynd um hvernig sé best að leggja Sundabraut.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti skýrslu starfshóps á vegum Vegagerðarinnar í gær um að Sundabrú væri hagkvæmari kostur en göng.
Haraldur kveðst ekki hafa velt fyrir sér hvort betra sé að brú verði reist eða göng smíðuð. Fyrst og fremst vonar hann að menn komist að niðurstöðu og verkefnið komist í gang.
„Sundabraut er mikið hagsmunamál fyrir okkur Mosfellinga. Þá þarf hún líka öll að verða að veruleika, ekki bara þessi tiltekna brú,“ segir hann og nefnir að verkefnið allt þurfi að klárast frá Reykjavík upp í Grafarvog, út á Geldinganes, Gunnunes og Kjalarnes þannig að umferðin í gegnum Mosfellsbæ geti farið þessa leið.
Hann segir að þetta muni einnig létta á umferð um Ártúnsbrekkuna og þeim gatnamótum sem þar eru. „Þetta yrði til hagsbóta fyrir Mosfellinga því við þurfum mörg hver að eiga erindi til Reykjavíkur,“ segir hann og bætir við að Ártúnsbrekkan sé vandamál alls höfuðborgarsvæðisins.
Haraldur segir Mosfellinga vera spennta fyrir því að framgangur verkefnisins verði sem hraðastur. Hann reiknar með því að skýrsla starfshópsins verði rædd í nefndum bæjarins á næstunni.