Engar heimildir til að falsa skjöl

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks.
Julian Assange, stofnandi WikiLeaks. AFP

Dómsmálaráðuneytið fullyrðir að það hafi ekki veitt neinar heimildir eða leyfi fyrir því að útbúin yrðu fölsuð trúnaðargögn í tengslum við rannsókn á Julian Assange, stofnanda Wiki­Leaks.

Þetta kemur fram í svari Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Andrésar Jónssonar, þingmanns utan flokka. Andrés Ingi spurði hvað væri hæft í fullyrðingum um að Ísland hafi veitt bandarískum stjórnvöldum leyfi til að útbúa fölsuð trúnaðargögn í tengslum við rannsókn á Assange.

Rétt er að taka fram að íslenskt sakamálaréttarfar byggist á því grundvallarsjónarmiði að meðferð sakamála eigi ekki að lúta pólitískum afskiptum valdhafa á hverjum tíma. Af þessu leiðir að dómsmálaráðuneyti og dómsmálaráðherra hafa engin afskipti af sakamálarannsóknum á Íslandi. Ráðuneytið getur enn fremur ekki tjáð sig um einstök sakamál sem eru til rannsóknar,“ segir meðal annars í svari ráðherra en Assange er enn eftirlýstur í Bandaríkjunum.

Bent er á að fyrirspurnin varði rannsókn á sakamáli í Bandaríkjunum og alþjóðleg réttarbeiðni hafi borist til Íslands, nánar tiltekið til ráðuneytisins. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eins og hér hefur verið lýst kemur ekki til þess að ráðuneytið taki efnislega afstöðu til einstakra rannsóknaraðgerða í þeim réttarbeiðnum sem berast heldur er það í höndum þar til bærra yfirvalda hér á landi, þ.e. ákæruvalds og lögreglu, að leggja mat á aðgerðirnar og hvort þær samræmist íslenskum lögum,“ segir í svarinu og fullyrt að ráðuneytið hafi ekki veitt neinar heimildir eða leyfi fyrir því að útbúin yrðu fölsuð trúnaðargögn í tengslum við rannsóknina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert