Dómsmálaráðuneytið fullyrðir að það hafi ekki veitt neinar heimildir eða leyfi fyrir því að útbúin yrðu fölsuð trúnaðargögn í tengslum við rannsókn á Julian Assange, stofnanda WikiLeaks.
Þetta kemur fram í svari Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Andrésar Jónssonar, þingmanns utan flokka. Andrés Ingi spurði hvað væri hæft í fullyrðingum um að Ísland hafi veitt bandarískum stjórnvöldum leyfi til að útbúa fölsuð trúnaðargögn í tengslum við rannsókn á Assange.
„Rétt er að taka fram að íslenskt sakamálaréttarfar byggist á því grundvallarsjónarmiði að meðferð sakamála eigi ekki að lúta pólitískum afskiptum valdhafa á hverjum tíma. Af þessu leiðir að dómsmálaráðuneyti og dómsmálaráðherra hafa engin afskipti af sakamálarannsóknum á Íslandi. Ráðuneytið getur enn fremur ekki tjáð sig um einstök sakamál sem eru til rannsóknar,“ segir meðal annars í svari ráðherra en Assange er enn eftirlýstur í Bandaríkjunum.
Bent er á að fyrirspurnin varði rannsókn á sakamáli í Bandaríkjunum og alþjóðleg réttarbeiðni hafi borist til Íslands, nánar tiltekið til ráðuneytisins.
„Eins og hér hefur verið lýst kemur ekki til þess að ráðuneytið taki efnislega afstöðu til einstakra rannsóknaraðgerða í þeim réttarbeiðnum sem berast heldur er það í höndum þar til bærra yfirvalda hér á landi, þ.e. ákæruvalds og lögreglu, að leggja mat á aðgerðirnar og hvort þær samræmist íslenskum lögum,“ segir í svarinu og fullyrt að ráðuneytið hafi ekki veitt neinar heimildir eða leyfi fyrir því að útbúin yrðu fölsuð trúnaðargögn í tengslum við rannsóknina.