Kærunefnd útlendingamála og Útlendingastofnun hafa synjað ungu 21 árs fórnarlambi mansals og kynferðisofbeldis sem jafnframt glímir við alvarleg andleg veikindi um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Manninum, sem er frá Nígeríu, verður að öllu óbreyttu vísað úr landi á allra næstu dögum.
Um er að ræða mann að nafni Uhunoma Osayomore sem lagði á flótta frá Nígeríu á barnsaldri og kom hingað til lands fyrir tæpu einu og hálfu ári og hefur myndað sterkt félagslegt net hér á Íslandi, að sögn lögmanns hans, Magnúsar D. Norðdahl.
Magnús segir mat stjórnvalda rangt að Osayomore sé öruggur í Nígeríu og geti þar fengið viðunandi aðstoð vegna alvarlegra andlegra veikinda.
„Geðheilbrigðismál þar eru í molum,“ segir Magnús og nefnir að fjöldi geðlækna í Nígeríu er einungis 300 talsins en heildarfjöldi íbúa rúmar 200 milljónir. Enn fremur geti fórnarlömb mansals ekki leitað til lögreglu vegna spillingar og sinnuleysis gagnvart þeim.
Magnús segir þetta eitt marga mála síðustu misseri þar sem fórnarlömbum mansals og kynferðisofbeldis er synjað um vernd hér á landi og að sú þróun sé sorgleg.
Kærunefnd útlendingamála hefur synjað Osayomore um frestun réttaráhrifa en Magnús segir að það geti leitt þess að honum verði vísað úr landi með valdi áður en honum gefst tækifæri til þess að bera mál sitt undir dómstóla.
Það þykir lögfræðingnum ankannalegt og segir málið á leið til Héraðsdóms Reykjavíkur á næstu dögum og þá verður endurupptökubeiðni einnig send á kærunefnd útlendingamála.
Aðspurður kveðst Magnús bjartsýnn og vonar innilega að málið fái farsælan endi.