Hringvegurinn um Mývatn og Möðrudalsöræfi opnaði aftur í gær. Aðstæður eru enn óbreyttar og er vegurinn því opinn í dag frá kl. 09:00 til 18:00. Utan þess tíma er alveg lokað.
Hringveginum var lokað í fyrradag vegna aukinnar óvissu og nýrra upplýsinga um breytingar á hegðun Jökulsár á Fjöllum.
Að sögn Kristjáns Kristjánssonar, yfirlögregluþjóns á Akureyri, er vöktun á svæðinu og er hún meiri en vanalega. Starfsmaður frá Vegagerðinni er á svæðinu og fylgist með og auk þess er lögreglan með eftirlit á svæðinu.
Að öllu óbreyttu verður haldinn stöðufundur á morgun varðandi framhaldið. „Ef eitthvað fer að gerast þá verður tekinn fundur en að meðan að ástandið er stöðugt þá reiknum við með að taka stöðufund á morgun,“ sagði Kristján í samtali við mbl.is.
Lögreglan á Norðurlandi eystra birti í gær á Facebook myndskeið frá eftirlitsflugi 2. febrúar þar sem aðstæður í Jökulsá á Fjöllum sjást vel.