Kjaraviðræður Félags framhaldsskólakennara (FF) og Félags stjórnenda í framhaldsskólum (FS) annars vegar og samninganefndar ríkisins hins vegar hafa nú staðið frá því í september.
Í frétt á vef Kennarasambandsins kemur fram að viðræðurnar hafi ekki þróast með þeim hætti sem vonast var til.
17. apríl á síðasta ári var skrifað undir stuttan samning til áramóta og því er félagsfólk KÍ í framhaldsskólum samningslaust frá og með 1. janúar sl. Í samningnum er ákvæði um vinnu sem samningsaðilar skyldu taka upp eigi síðar en 1. september 2020.
Markmið vinnunnar var sameiginleg skoðun launaþróunar í framhaldsskólum miðað við aðra samanburðarhópa opinberra starfsmanna. Leitað yrði leiða um úrbætur ef sú skoðun leiddi í ljós að það hallaði á félagsfólk KÍ.
Samninganefndir FF og FS eru sammála um að viðræður hafi ekki skilað ásættanlegum árangri og hafa því leitað til embættis ríkissáttasemjara um miðlun mála.