Liðið Klakinn frá Háskóla Íslands er meðal 48 liða sem komust í úrslit í alþjóðlegri samkeppni um gerð spálíkana um kórónuveirufaraldurinn. Liðið er mannað tveimur nemendum og einum starfsmanni og er eina liðið frá Íslandi í úrslitum.
Keppnin kallast Pandemic Response Challenge og er á vegum bandarísku fyrirtækjanna XPRIZE og Cognizant. Hún snýst um að nýta gervigreind til að spá um þróun faraldursins, leggja til áætlanir um viðbrögð og tryggja örugga dreifingu bóluefna.
Liðið Klakinn er skipað þeim Alexander Berg Garðarssyni, sérfræðingi í gagnavísindum við Háskóla Íslands, og þeim Kára Rögnvaldssyni og Rafael Vias, BS-nemum í stærðfræði við skólann.
Allir hafa þeir starfað í teymi Háskóla Íslands og samstarfsaðila sem unnið hefur að þróun spálíkans um þróun Covid-19-faraldursins hér á landi undir stjórn Thors Aspelund, prófessors í líftölfræði, er kemur fram í tilkynningu frá Háskóla Íslands.
Þá hefur Tómas Philip Rúnarsson, prófessor við iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands, verið liðinu til ráðgjafar.
„Við fréttum af þessari keppni í október og hún hófst í nóvember. Hún er í tveimur hlutum; fyrri hlutanum lauk í lok desember. Í þeim hluta átti maður að búa til spálíkan sem átti að geta spáð fyrir um 235 svæði í heiminum, þar á meðal lönd og einstaka ríki í Bandaríkjunum og öðrum löndum. Svo var fylgst með líkönunum í þrjár vikur og þau líkön sem voru nákvæmust fengu að halda áfram í næsta skref,“ sagði Alexander Berg í samtali við mbl.is.
Líkönin taka inn hversu strangar aðgerðir eru í hverju landi fyrir sig. Þannig er hægt að spá fyrir um mismunandi samsetningar af aðgerðum sem gætu haft mismunandi áhrif á samfélög útskýrir Alexander.
Alexander segir að vinnan við spálíkan um þróun Covid-19-faraldursins hér á landi undir stjórn Thors Aspelund hafi klárlega hjálpað þó að hún hafi verið ólík.
„Seinna skrefinu var svo skilað í gær. Það var módel sem getur mælt með mismunandi samsetningum af aðgerðum fyrir löndin og þær geta verið misstrangar.“
Tvö lið munu fá 250 þúsund bandaríkjadali í verðlaunafé hvort og verða sigurvegarar kynntir 26. febrúar.