Nám snýst ekki lengur um að muna

Ingvi Hrannar Ómarsson, Birna Ósk Einarsdóttir, Skapti Örn Ólafsson og …
Ingvi Hrannar Ómarsson, Birna Ósk Einarsdóttir, Skapti Örn Ólafsson og Sigrún Halldórsdóttir voru í pallborði á Menntadegi atvinnulífsins í dag. Skjáskot af Menntadeginum

„Það er mýta hjá okkur að við höldum að við útskrifumst einhvern tímann. Áður fyrr var talað um að maður útskrifaðist þetta ár og svo haldi maður bara áfram að miðla þeirri þekkingu sem ég lærði á þeim árum í námi. Nú er það ekki lengur, við eigum að hætta að tala um einhverskonar útskrift. Við erum alltaf að læra,“ sagði Ingvi Hrannar Ómarsson, kennari og frumkvöðull í erindi sínu um virkni í námi og námsaðgerðum á Menntadegi atvinnulífsins fyrr í dag. 

Ingvi sagði einnig að í námi samtímans sé horfið frá því að geta munað og lært utan bókar yfir í að finna og vinna úr upplýsingum. Þá hvetur Ingvi fólk til að sýna vinnuna sína í meira mæli. „Það er öllum sama um hvað þú hefur lært, það vilja allir vita hvað þú hefur gert og hvar ég get fundið það [...] Við þurfum ekki lengur bókaútgefanda, við getum gefið út okkar eigin bækur ef við viljum. Við þurfum ekki lengur leyfi hjá ritstjóra blaðs til að gefa eitthvað út, við getum stofnað blog. Við þurfum ekki að komast inn á útvarpsstöðvar, við getum stofnað podcast,“ sagði Ingvi og bætti við að virkni í námi og námsaðgerðum skipti öllu máli og að við séum alltaf að læra.

Ingvi Hrannar Ómarsson, kennari og frumkvöðull.
Ingvi Hrannar Ómarsson, kennari og frumkvöðull. Skjáskot frá Menntadeginum

Menntadagur atvinnulífsins fór fram í morgun í áttunda sinn, rafrænt og bar yfirskriftina Færni til framtíðar. Fjallað var um tíu mikilvæga færniþætti framtíðarinnar og sérfræðingar víða úr atvinnulífinu fengin til að fjalla um þá í formi örfyrirlestra. 

Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.

Viðhorfið mikilvægast

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, sagði viðhorf starfsfólks með mikilvægari þáttum. Hún sagðist leggja mikla áherslu á viðhorf starfsfólks við ráðningu, ekki eingöngu þekkingu „því að viðhorfinu er svo erfitt að breyta en þekkinguna er hægt að bæta.“

Þá sagði Birna að lausnarmiðuð nálgun verði sá þáttur sem muni aðgreina fólk frá róbótum í störfum þegar fram líða stundir. „Það verður okkar séreinkenni, mannfólksins, að geta brugðist við óvæntum áskorunum sem við þurfum að leysa,“ sagði Birna.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka. Skjáskot frá Menntadeginum

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, fjallaði um seiglu, streituþol og sveigjanleika. Hann sagði einföldu hlutina sem hægt væri að gera til að vera vel í stakk búinn til að takast á við mikið álag, eins og hreyfingu, hollt mataræði og góðan svefn, vera það sem oft færi fyrst út um gluggann við slíkar aðstæður. 

Þá sagði Víðir að lykillinn að því að þrauka erfitt ástand væri góður undirbúningur, á verkferlum og  starfsfólki. Hann sagði að þetta væri „hellings vinna sem vonandi þarf aldrei að nota.“

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Skjáskot frá Menntadeginum

Menntaverðlaunin hlutu Íslandshótel

Verðlaunin Menntafyrirtæki ársins árið 2021 hlutu Íslandshótel. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, kynnti verðlaunin og sagði „óskandi að þessi góði grunur og reynsla verði grunnurinn að farsælli endurreisn að íslenskri ferðaþjónustu á komandi árum.“

Menntasprota atvinnulífsins hlaut Dominos. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra kynnti verðlaunin. Dominos rekur stærstu veitingarkeðju landsins með 23 staði um land allt, með 650 starfsmenn og meðalaldur um 22 ár. Áskorunum sem felast í því er m.a. mætt með metnaðarfullu starfsþjálfunarferli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert