Nýr kjarasamningur milli Alcoa Fjarðaáls, AFLs starfgreinafélags og Rafiðnaðarsambands Íslands var undirritaður í dag. Samningurinn gildir í þrjú ár og er afturvirkur í eitt ár.
Samningurinn felur einnig í sér launahækkanir og vinnutímastyttingu, hvort tveggja í líkingu við það sem samið hefur verið um hjá hinum tveimur álverunum á Íslandi, álveri Norðuráls á Grundartanga og álveri Rio Tinto Alcan í Straumsvík. Þá er samningurinn einnig í samræmi við lífskjarasamninginn.
Tor Arne Berg, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, segist í fréttatilkynningu ánægður með að samningurinn sé í höfn og að hann feli í sér mikla kjarabót fyrir starfsfólk Fjarðaáls auk þess sem hann bæti jafnvægi milli vinnu og einkalífs sem er mikilvæg breyta fyrir fjölbreyttan vinnustað.
Berg segir einnig að þrátt fyrir að samningaferlið hafi verið langt, ekki síst vegna aðstæðna sem Covid-19 skapaði, þá hafa samskipti við verkalýðsfélögin verið góð og að aðstoðin frá ríkissáttasemjara hafi hjálpað við að ná niðurstöðu. Næstu skref eru að kynna samninginn formlega fyrir starfsfólki sem síðan greiðir um hann atkvæði.