Breytingar á gjaldskrá Íslandspósts vegna póstsendinga út á land grafa undan samkeppni enda hefur fyrirtækið niðurgreitt sendingar. Þetta er mat Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) en þau hafa krafið samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið svara vegna málsins.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, segir þetta hafa komið skýrt fram í haust. Þrátt fyrir metmánuð í netverslun í nóvember hafi flutningafyrirtækjum gengið illa að fá viðskipti úti á landi.
Hörður Felix Harðarson hrl. vann álitsgerð um málið fyrir SVÞ. Telur hann framgöngu Póstsins brot á samkeppnislögum ásamt því sem áleitnar spurningar vakni um eftirlit Póst- og fjarskiptastofnunar með því að lögum sé fylgt.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra málið hafa komið til umræðu. Pósturinn hafi brugðist við útvíkkun alþjónustu úr 50 grömmum í 10 kíló með því að færa gjaldskrá niður á lægsta verð.