Safnaði fyrir lögfræðikostnaði á Twitter

Einungis tók fjóra tíma fyrir Sæborgu að safna fyrir lögfræðikostnaði …
Einungis tók fjóra tíma fyrir Sæborgu að safna fyrir lögfræðikostnaði á Twitter. AFP

Sæborg Ninja Urðardóttir safnaði fyrir kostnaði vegna lögfræðiaðstoðar á Twitter-reikningi sínum í dag. Hún hyggst sækja rétt sinn gagnvart skemmtistaðnum Hverfisbarnum á Hverfisgötu í Reykjavík. 

Sæborg segir frá því í umræddri færslu að henni hafi verið vísað út af Hverfisbarnum árið 2018 og vegna þess að hún er transkynja kona. 

„Dyravörðurinn tók mig og bara sérstaklega mig fyrir, kallaði mig „karl í kellingarpels“, rangkynjaði mig ítrekað og benti mér á að ef ég vildi inn þyrfti ég að klæðast jakkafötum,“ segir Sæborg frá í færslu sinni á Twitter. 

Hún segir það hafa tekið lögregluna ár að tala við vitni að atburðinum og þrátt fyrir nægan vitnisburð hafi málið verið látið falla niður. Hún hefur því ákveðið að höfða einkamál og óskaði eftir framlögum frá Twitter-notendum.

„Það vekur óneitanlega spurningar um hvað þurfi til, til þess að transfólk njóti þeirra verndar sem lög kveða á um, hvort það sé í raun leyfilegt að smána transfólk og neita því um þjónustu,“ segir Sæborg í færslunni. 

Einungis fjórum tímum eftir að Sæborg setti færsluna inn setur hún inn aðra færslu þar sem hún segir að takmark söfnunarinnar hafi náðst. Áætlaður kostnaður Sæborgar var tæpar 134 þúsund krónur.

Færslur Sæborgar má sjá hér:



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert