Þöggun algeng hjá íþróttafólki

Fatlað fólk á meiri hættu á að lenda í kynferðisofbeldi, …
Fatlað fólk á meiri hættu á að lenda í kynferðisofbeldi, að því er fram kom í erindi Birtu Björnsdóttur, verkefnastjóra siðamála hjá ÍBR.

Fatlað íþróttafólk, fólk af erlendum uppruna, hinsegin og kynsegin íþróttafólk og afreksíþróttafólk er oftar á meðal þolenda kynferðislegs ofbeldis en aðrir, samkvæmt belgískri og hollenskri rannsókn. 

Kom þetta fram í máli Birtu Björnsdóttur, verkefnastjóra siðamála hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR), á ráðstefnunni Íþróttir eru fyrir alla, sem fram fór í húsakynnum Háskólans í Reykjavík í dag. Ráðstefnan er hluti af Reykjavíkurleikunum, afreksíþróttamóti þar sem keppt er í yfir 20 einstaklingsíþróttagreinum.

Fram kom í rannsókn sem Birta vísaði til að norskar afreksíþróttakonur hafi verið líklegri til þess að vara samherja sína við þeim sem beittu ofbeldi, fremur en að tilkynna ofbeldið formlega:

„Þetta þýðir að þöggunin er ennþá mjög mikil í íþróttum,“ sagði Birta.

Birta Björnsdóttir, verkefnastjóri hjá ÍBR.
Birta Björnsdóttir, verkefnastjóri hjá ÍBR. Ljósmynd/Aðsend

Mikilvægt að íþróttafélögin setji sér siðareglur

Rannsóknir hafa einnig bent til þess að íþróttafólk af erlendum uppruna, hinsegin og kynsegin íþróttafólk, afreksíþróttafólk og fatlað íþróttafólk sé í sérstökum áhættuhópi hvað varðar kynferðisofbeldi.

„Afreksíþróttafólk er oft nálægt markmiðum sínum og iðkandinn verður nánast að gera allt sem þjálfarinn segir til þess að ná markmiðum sínum,“ sagði hún. Valdaójafnvægið sem þarna skapist auki hættuna á kynferðisofbeldi.

Mikilvægt sé að íþróttafélög séu sammála um að hafa heilbrigt umhverfi og ákveði hvað þau vilji að einkenni íþróttastarfið. Umræða, siðareglur og hegðunarviðmið séu þar veigamikil atriði.

„Það er ekki nóg að hafa einungis hegðunarviðmið,“ sagði hún og benti á mikilvægi þess að reglur yrðu kynntar bæði þjálfurum og iðkendum.

Hægt er að sjá erindi Birtu í heild sinni hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert