„Varðandi samskipti íslenskra stjórnvalda við ríkisstjórn nýs forseta Bandaríkjanna, Joe Biden, get ég upplýst að undanfarnar vikur hefur verið unnið að því í utanríkisráðuneytinu í góðu samstarfi við sendiráð Íslands í Washington að kortleggja hvernig best megi vinna að áframhaldandi góðum samskiptum Íslands og Bandaríkjanna,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á þingfundi í dag. Var hann til svara í sérstakri umræðu um samskipti ríkjanna eftir valdaskiptin að beiðni Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar.
„Hvað mig varðar þá staldra ég ekki síst við þá staðreynd að undanfarnar vikur hafa sýnt hversu sterk lýðræðishefðin er í Bandaríkjunum þegar til kastanna kemur. Það sem við okkur blasir er að lýðræðisstofnanir og stjórnskipulag stóðust það álagspróf sem segja má að framganga fyrrverandi forseta hafi leyst úr læðingi,“ sagði Guðlaugur.
Joe Biden tók við embætti forseta Bandaríkjanna 20. janúar síðastliðinn eftir fjögurra ára valdatíð Donalds Trumps.
„Í stuttu máli þá vænti ég þess að samband okkar við nýja valdhafa í Washington verði gott. Í því sambandi get ég upplýst að vonir standa til að nýr utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony Blinken, geti sótt ráðherrafund norðurskautsráðsins sem haldinn verður hér á landi í maí,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á þingfundi í dag.
Benti Guðlaugur Þór á að strax mætti greina nýjan tón í alþjóðasamvinnu. Þannig hefði Biden á fyrsta degi sínum í embætti skipað fyrir um að Bandaríkin myndu aftur gerast aðili að Parísarsamkomulaginu og dregið til baka úrsögn Bandaríkjanna úr Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni.
Guðlaugur bætti við að „í ljósi áherslna Bidens forseta á loftslagsmál þá væntum við þess raunar að hér séu tækifæri til að víkka enn frekar út gott samstarf þjóðanna sem hefur grundvallast á sterkum viðskiptatengslum, samstarfi á sviði öryggismála og af því að við deilum hugmyndum lýðræðis og frelsi.“
Guðlaugur segir gott samband Íslands og Bandaríkjanna grundvallast á sameiginlegum gildum og hagsmunum og sagði sambandið ekki vera „bundið því hver situr í forsetaembættinu þar hverju sinni eða hvaða flokkur ræður ríkjum“.