Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, sagðist á þingfundi í dag sammála Karli Gauta Hjaltasyni þingmanni um að draga þyrfti úr urðun og það væri eitt af viðfangsefnum nýrrar stefnu um meðhöndlun úrgangs.
Í stefnunni er einnig fjallað um að taka upp flokkunarskyldu, að samræma flokkun sem og að færa þjónustu nær íbúum.
Auk þess sagðist Guðmundur hafa talað fyrir því að setja urðunarskatt hér á landi.
Benti Karl Gauti á að í dag urðum við rúmlega 200.000 tonn af sorpi og spurði umhverfisráðherra hvort að hann beiti sér fyrir því að sorpbrennslustöð rísi hér á landi.
Guðmundur sagði þá sorpbrennslustöðvar ekki vera einu lausnina en væru þó lausn á því sem ekki er hægt að endurnýta. „Við megum ekki byggja upp þannig kerfi að það sé eina lausnin í úrgangsmálum á Íslandi. Þá væri ekki vel fyrir okkur komið, en við þurfum að vinna að þeim lausnum eins og öðru.“
Guðmundur benti þá á að endurvinnsluhlutfall heimilisúrgangs er 30% en á að vera 50%.
„Við verðum að auka endurnotkun á hlutum. Verðum að nota þá betur. Verðum að nota minna og verðum að endurvinna eins mikið og við getum.“