„Það verða ekki gefin út nein tilmæli um að fólk eigi ekki að ferðast. Við þurfum hins vegar að hugsa þetta öðruvísi en áður,“ segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær verður vetrarfrí í öllum skólum á höfuðborgarsvæðinu í kringum helgina 19.-21. febrúar næstkomandi. Búast má við því að margir verði á faraldsfæti á þessum tíma. Skíðasvæðin á Akureyri, Dalvík og Ísafirði hafa til að mynda notið mikilla vinsælda á þessum árstíma síðustu ár.
„Við höfum áhyggjur af því að fólk skipuleggi sig ekki nógu vel,“ segir Víðir sem bendir á að vegna samkomutakmarkana þurfi fólk að huga að afþreyingu fram í tímann, ætli það sér að njóta hennar. „Það er takmarkað hvað geta farið margir í sund, á skíði og hvað veitingastaðir geta tekið inn af fólki. Við hvetjum því fólk til að vera tímanlega í skipulagningu og panta sér afþreyingu svo ekki myndist kraðak og vandræðagangur.“
Í haust var fólk hvatt til að ferðast ekki á milli landshluta en Víðir segir að þess gerist ekki þörf núna. „Staðan er ágæt og hún er eins um allt land,“ segir hann.
Víðir segir jafnframt að hjá almannavörnum sé nú unnið að leiðbeiningum til fólks fyrir öskudaginn sem er 17. febrúar. „Öskudagur er stór dagur víða, til að mynda á Akureyri, og við erum að setja saman leiðbeiningar um það hvernig hægt er að halda hann hátíðlegan. Öskudagurinn verður ekki eins og venjulega en við ætlum að reyna að hafa gaman.“