Beltagrafa fór á hliðina við miðlunarlón Gönguskarðsárvirkjunar í gær með þeim afleiðingum að stýrishús gröfunnar fór á kaf.
Karlmaður á fimmtugsaldri var í stýrishúsinu en honum var bjargað af viðbragðsaðilum sem höfðu verið kallaðir á vettvang.
Að sögn Sigurðar Kristjánssonar, setts lögreglustjóra hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, var stýrishúsið á kafi í einhverja stund. Frekar stuttan tíma tók að koma manninum þaðan í burtu og fór því betur en á horfðist.
Að því er kemur fram á vefsíðu Feykis var maðurinn að fjarlægja klakabrynju við affall stíflunnar þegar slysið varð.
Tilkynning um slysið barst lögreglunni klukkan 15.20 og voru allir viðbragðsaðilar sendir á staðinn, sem er rétt fyrir ofan bæinn. Maðurinn var fluttur á heilbrigðisstofnun Norðurlands og segist Sigurður ekki vita hvort hann hafi orðið fyrir meiðslum.
Vinnueftirlitið hefur tekið við rannsókn málsins.